„Þetta er hægt og afllítið gos og að sumu leyti eins og það hafi verið búið til fyrir áhorfendur,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær. „Eins og þetta er í dag þá geturðu farið upp á svæðið og í stúkusæti og horft á sjónarspil náttúrunnar, segir hann.“

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Mánaðarafmæli jarðeldanna á Reykjaneskaga er í dag og gosið er ekki búið. „Það eru engin merki um að það sé að draga úr því eða því sé að ljúka,“ Segir Magnús Tumi. Fjórar vikur frá því að jörð rifnaði í Geldingadölum og gosefnin streyma upp úr iðrum jarðar og gosið fer víða um Geldingadali og niður í Merardali.

Um hvað hafi komið honum mest á óvart á þessum fjórum vikum segir hann stöðugleikann: „Það er eitt sem stendur upp úr og það er hvað þetta er stöðugt, þetta höfum við ekki séð lengi og ég hef aldrei séð þetta,“ segir Magnús.

Gosið hefur einkenni dyngjugoss segir Magnús en við vitum ekki þó hversu stórt það verði. Dyngjur verða til á frekar hægum gosum og segir Magnús Tumi að tölfræðin sýni að líklegast verði lítið dyngjufjall til úr þessu á Reykjanesskaganum þar sem fleiri lítil eru fyrir. „En tölfræði er bara tölfræði“, bætir hann við.

„Tankur“ eldgossins virðist vera stór og því nóg eftir undir jörðu og ekkert sem sýni að þrýstingur sé að minnka.

Spurður hvort að vísindamenn hafi núna „bestu mögulegu kennslustofu“ fyrir framan sig til að bæta við þekkingu sína segir hann svo vera: „Algerlega, þetta er náttúrulega svo spennandi fyrir alla nemendum í jarðvísindum.“ Mikill vísindalegur ávinningur er af gosinu. „Það sem er mjög merkilegt er að við erum að sjá svona atburði og þessar aðstæður í fyrsta skipti eftir að mælitækin og fræðin urðu til.“

„Þetta er mjög lítið gor og þá að mörgu leyti er hægt að mæla þetta miklu betur en hægt hefur verið nokkurn tíma áður, þannig að það verður mikill ávinningur af þessu. Þetta er kennslugos og vísindagos. Svo er þetta eins vel staðsett og hægt er að hafa eldgos á Reykjanesskaganum,“ Segir Magnús

Erlendir vísindamenn hafa dvalið hér í hópum og von er á fleirum.