Í skoðanagrein sem birtist í Fréttablaðinu í dag fjalla þær Halldóra Jónsdóttir og Lára Björgvinsdóttir, yfirlæknar geðþjónustu Landspítalans, um þörfina á nýrri geðdeild. Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar og fyrrverandi sérfræðingur geðheilbrigðissviðs Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO-EURO), skrifar grein á vef Fréttablaðsins þar sem hann tekur undir með Halldóru og Láru.
Í grein þeirra Halldóru og Láru segir að núverandi húsakostur geðdeildarinnar uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til slíkrar heilbrigðisstarfsemi í dag. Þær lýsa vonbrigðum sínum með að ekki sé á dagskrá að byggja nýbyggingar, legudeildir eða dag- og göngudeildir fyrir þá sem þjást við geðrænan vanda.
„Vil ég sem formaður Geðhjálpar taka heilshugar undir með læknunum og öðrum sem e.t.v. eiga eftir að ýta á stjórnvöld um sama mál,“ skrifar Héðinn.
„Nú er bygging nýs spítala stendur yfir er orðið ljóst að breytingar á geðþjónustu verða þó þær að bráðamóttaka spítalans verður sameiginleg sem þýðir að öll þörf fyrir aðstoð vegna ójafnvægis fær þjónustu undir sama þaki. Á tímum tíðrar „aðskilnaðarumræðu“ í samfélaginu er það mikið fagnaðarefni en mun án efa krefjast aðlögunar og þar með umburðarlyndis og skilnings,“ skrifar hann.
Í grein sinni fjallar hann um þá hugmyndafræði sem liggur að grundvelli geðheilbrigðisþjónustu. Héðinn vitnar í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um þróun samfélagsgeðþjónustu þar sem slíkri þjónustu er skipt í tvo þætti.
„Í dag má í megindráttum skipta þjónustu hins opinbera við fólk sem býr við vanlíðan og mögulegt frávik frá því sem eðlilegt er í lundarfari í tvennt. Annars vegar þjónustu sem innt er af hendi innan lokaðra spítala eða stofnanna og hins vegar þjónustu sem staðsett er í nærsamfélaginu og er markvisst ætlað að byggja bata/framfarir fólks á virkni þess sjálfs og þeim þáttum sem ákvarðast á frelsi til ákvarðana,“ skrifar Héðinn.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur áherslu á í skýrslunni að þörf sé á nýrri nálgun í geðheilbrigðismálum, ekki eigi lengur að einblína á greiningar, geðlyf og að draga úr einkennum. Það hafi leitt til ofgreininga „sem kunni að þrengja að mannlegri upplifun með þeim hætti að leitt geti til takmarkaðrar viðurkenningar á mannlegri fjölbreytni.“

Auk þess þurfi að horfa meira til þeirra þátta sem hafi áhrif á geðræna heilsu fólks, til að mynda ofbeldis, fátæktar, atvinnuleysis og fleiri þátta. „Með öðrum orðum, í anda áfallatengdrar nálgunar, að spyrja frekar „hvað kom fyrir þig“ frekar en „hvað er að þér“.
Pyntinganefnd Evrópuráðsins hefur bent á það í úttekt sinni að aðstaða sjúklinga á geðdeildinni sé brot á mannréttindum. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis, sem gerð var eftir heimsókn á þrjár lokaðar geðdeildir Landspítalans, var staðfest að mannréttindabrot væru framin á hverjum degi á einstaklingum með geðrænan vanda. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fjallar einnig um þvingun, nauðung og mannréttindi í skýrslu sinni.
Héðinn segir þetta nokkuð sem Geðhjálp hafi „eindregið lagst gegn og stöndum fast á því að „Þvingunarlaus Ísland“ er mögulegt tilraunaverkefni sem gæti endurspeglað mennsku okkar og vakið alþjóðlega athygli.“
„Sú refsimenning sem við fáum, því miður, of margar sögur af innan Landspítala er eitthvað sem stofnuninni bera að uppræta strax. Að fólki sem þar leitar sér þjónustu og leggst sjálfviljugt inn sé refsað fyrir t.d. að ganga út úr viðtali með því að taka af því tóbak eða banna því að fara út er eitthvað sem á sér engan stað í lögum og verður að linna,“ skrifar Héðinn. Það sé markmið Geðhjálpar að þjónusta á öllum stigum sé án þvingunar, nauðungar og refsinga.
„Það er afar mikilvægt að þroskuð umræða fari fram í undanfara byggingar nýs húsnæðis fyrir þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu á þeim forsendum m.a. að við ræðum jafnvægi milli þjónustu innan spítala og samfélagsgeðþjónustu. Þar þarf samfélagsþjónustan aukið vægi og nauðsynleg þjónusta innan spítala þarf allt annað umhverfi en nú er eins og geðlæknarnir segja en það sem ekki er nefnt í þeirra grein er að endurskoðaða þarf alla hugmyndafræði geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi og þar hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin nú þegar slegið tóninn,“ skrifar Héðinn að lokum.