Nótt eina árið 2003 vöknuðu í­búar í fjöl­býlis­húsi skammt frá borginni La Spezia á Ítalíu við há­vaða úr nær­liggjandi íbúð. Í ljóst kom að ein­hver hafði sturtað niður úr klósetti og var há­vaðinn slíkur að hann heyrðist vel inn í næstu íbúð.

Ó­hætt er að segja að í kjöl­farið hafi byrjað at­burða­rás sem var loksins til lykta leidd fyrir ítölskum dóm­stólum eftir að málið hafði velkst um í kerfinu: Há­vaðinn í klósettinu var of mikill og var í­búum gert að gera á­kveðnar breytingar til að draga úr honum.

Í­búarnir sem kvörtuðu sögðu að tíðar klósett­ferðir ná­granna sinna á næturnar hefðu skert lífs­gæði þeirra svo um munar. Fjórir bræður bjuggu í um­ræddri íbúð og kom í ljós að þeir höfðu komið klósett­kassanum sjálfum fyrir inni í vegg sem liggur að hjóna­her­bergi ná­grannanna.

Í frétt Was­hington Post kemur fram að ítalskir dóm­stólar hafi meðal annars litið til dóma­for­dæma frá Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu við á­kvörðun sína. Féllst dóm­stóllinn á að þessar tíðu klósett­ferðir og há­vaðinn sem fylgdi hafi skert lífs­gæði í­búanna svo um munar.

Hæsti­réttur Ítalíu dæmdi bræðurna til að gera breytingar á salernis­rými í­búðarinnar til að draga úr há­vaða. Þá var þeim gert að greiða ná­grönnum sínum 500 evrur, 73 þúsund krónur, fyrir hvert ár sem ó­næðið stóð yfir.