Vöðvabólga er stór áhrifaþáttur í myndun höfuðverkja, þá sérstaklega ef um er að ræða einstaklinga sem vinna einhæfa skjávinnu, eða eru búnir að lenda í forskaða, líkt og áverka á háls og herðar sem algengt er í aftanákeyrslum svo dæmi sé tekið.

Verulega getur reynt á þá sem fá reglu­lega og tíða höfuðverki og er mígr­eni þar frægast og er skilgreint sem stingandi, púlserandi verkur, sem er iðulega á sama staðnum endur­tekið, yfirleitt öðru megin í höfðinu.

Það skapar samhliða mikil óþægindi, eins og ljós- eða hljóðfælni, ógleði og jafnvel uppköst. Þessi sjúkdómur kemur í köstum og getur staðið allt frá nokkrum klukkustundum upp í marga daga í svæsnustu tilvikum og veldur iðulega verulegri röskun á lífi þeirra sem við hann glíma.

Sumir fá fyrirvara á köstum og geta þá brugðist við með lyfjagjöf áður en kastið verður óbærilegt, aðrir eru ekki svo heppnir. Nauðsynlegt er að greina mígrenið og útiloka aðrar orsakir höfuðverkja.

Mikið er rætt um triggeringar eða útleysara á verkjaköstin og hafa þar verið talin upp atriði líkt og svefnleysi, streita, föstur og ofát, áfengi, kaffi, ostar, krydd, breytingar á umhverfisþáttum, eins og veður, mikil sól, lykt, ilmvatn og svo vitaskuld hormónabreytingar sem og lyf.

Hver og einn lærir á sitt mígreni og er í þeim anda að forðast þætti sem geta skapað köstin. Það er þó ekki hægt að öllu leyti og þarf þá að vera hægt að grípa til meðferðar sem rýfur hausverkjakastið.

Venjuleg verkjalyf eins og Paracetamol geta virkað ágætlega en oftsinnis þarf blöndu af lyfjum og er þá bætt við bólgueyðandi lyfjum eins og Íbuprófeni.

Blöndur af þessum lyfjum auk koffíns eru algeng víða en í flestum tilvikum þurfa mígrenisjúklingar virkari lyf og eru þá triptan-lyf iðulega fyrsta val. Þá er í sumum tilvikum nauðsynlegt að nota jafnvel morfínskyld efni, en þau ætti að forðast í lengstu lög.

Ýmis lyf eru til og þá bæði í formi töflu- eða úða, eða sem stungulyf. Sumir nota lyf sem fyrirbyggjandi meðferð og hefur verið horft í nokkra flokka lyfja, þar með talin blóðþrýstilyf, flogaveikilyf, þunglyndislyf og svo auðvitað í sprautuformi Botox, fyrir þá sem eru með mjög slæmt mígreni sem ekki svarar meðferð.

Fyrir utan lyfin er nauðsynlegt að halda rútínu, drekka vel af vatni, sofa nægjanlega og hreyfa sig reglulega, sem eru ráð sem henta við öllum sjúkdómum. En í mígreni eru þau sérstaklega mikilvæg til að draga úr tíðni kasta auk þess að stunda slökun.