Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, segist fagna því að embætti héraðssaksóknara hafi fellt niður rannsókn sína á starfsháttum SÁÁ. Hátt hafi verið reitt til höggs gegn SÁÁ, óhagnaðardrifnum almannaheillasamtökum, sem veitti heilbrigðisþjónustu til handa viðkvæmum hópi í miðjum heimsfaraldri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SÁÁ.
Málavextir eru þeir að forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sendi héraðssaksóknara mál frá eftirlitsdeild SÍ þar sem boðaðar voru endurkröfur á hendur SÁÁ vegna reikninga og vanefnda á þjónustu og þjónustumagni, sem veitt voru á meðferðarsviði SÁÁ á árunum 2020-2021. Að mati eftirlitsdeildar SÍ voru reikningarnir tilhæfulausir, auk þess sem deildin gerði alvarlegar athugasemdir við meðferð SÁÁ á sjúkraskrám.
„Bréfið sem Sjúkratryggingar Íslands sendu forsvarsmönnum SÁÁ og var birt í fjölmiðlum er uppfullt af ásökunum, rangfærslum og rógi og málsmeðferðin öll hefur vegið gróflega að starfsheiðri, trúverðugleika og trausti starfsmanna og starfsemi SÁÁ,“ kemur fram í tilkynningunni.
Þá standi eftir sú spurning hvað opinberri, valdamikilli stofnun eins og Sjúkratryggingum Íslands hafi gengið til.
„Hvers vegna málsmeðferðin var ekki vandaðri en raun ber vitni, hvers vegna skýringar og gögn SÁÁ, sem hafa verið þau sömu frá upphafi, voru ekki teknar til greina og hvers vegna ágreiningur um framkvæmd nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri þar sem framlag ríkisins er föst upphæð á ári var ekki leyst með hagsmuni þeirra sem þurftu þjónustuna í fyrirrúmi?“ segir í tilkynningunni.
Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan.
Fréttatilkynning vegna niðurstöðu eftirlitsmáls SÍ gegn SÁÁ
Um mitt ár 2021 barst SÁÁ bréf frá eftirlitsdeild SÍ þar sem boðaðar voru endurkröfur á hendur okkar vegna tilhæfulausra reikninga og vanefnda á þjónustu og þjónustumagni, vegna þjónustu sem veitt var á meðferðarsviði SÁÁ á Covid tímum 2020-2021.
Eftirfarandi stofnanir fengu, að auki, málið til umfjöllunar að frumkvæði SÍ:
a) Persónuvernd vegna ætlaðra brota á lögum um persónuvernd.
b) Embætti landlæknis vegna lögmætis færslna í sjúkraskrá og ætlaðra brota gegn lögum um sjúkraskrá, ætlaðra brota gegn 21.og 23.grein laga um heilbrigðisstarfsmenn og ætlaðra brota gegn fyrirmælum um notkun gæðavísa. Eftirlitsdeild SÍ vísaði sérstaklega til Embættis landlæknis ábendingum um ætluð brot í þjónustu ungmennadeildar á sjúkrahúsinu Vogi.
c) Héraðssaksóknari í formi kæru frá SÍ vegna auðgunarbrota og fjársvika.
Umfjöllun þessara stofnana lauk með eftirfarandi hætti:
a) Persónuvernd vísaði ábendingu SÍ frá.
b) Embætti landlæknis stofnaði eftirlitsmál vegna færslna í sjúkraskrá og ætlaðra brota gegn laga um heilbrigðisstarfsmenn sem lauk með bréfi dags. 27.september 2022 þar embættið fellst á skýringar SÁÁ og telur ekki tilefni til að aðhafast frekar.
Embættis landlæknis framkvæmdi jafnframt úttekt á starfsemi Ungmennadeildar á sjúkrahúsinu Vogi. Niðurstöðu hennar má finna hér: Uttektarskýrsla embættis landlæknis_ ungmennadeild á Vogi_des2022.pdf (landlaeknir.is) Embætti landlæknis telur skýringar SÁÁ fullnægjandi og því ekki tilefni til að aðhafast frekar
c) Kæra SÍ til Héraðssaksóknara vegna auðgunarbrota kafla almennra hegningarlaga
nr. 19/1940, 248 gr.laga um fjársvik og 4.gr laga um sjúkraskrár var tekin til rannsókna en hætt að lokinni yfirferð á gögnum málsins.
Hér var hátt reitt til höggs gegn SÁÁ, óhagnaðardrifnum almannaheillasamtökum sem veitti heilbrigðisþjónustu til handa viðkvæmum hópi, í miðjum heimsfaraldri. Bréfið sem Sjúkratryggingar Íslands sendu forsvarsmönnum SÁÁ og var birt í fjölmiðlum er uppfullt af ásökunum, rangfærslum og rógi og málsmeðferðin öll hefur vegið gróflega að starfsheiðri, trúverðugleika og trausti starfsmanna og starfsemi SÁÁ.
Við fögnum þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir eftir skoðun annarra opinberra aðila en þeirra sem framkvæmdu þá “rannsókn” sem málið grundvallaðist á. Eftir stendur sú spurning hvað opinberri, valdamikilli stofnun eins og Sjúkratryggingum Íslands gekk til, hvers vegna málsmeðferðin var ekki vandaðri en raun ber vitni, hvers vegna skýringar og gögn SÁÁ, sem hafa verið þau sömu frá upphafi, voru ekki teknar til greina og hvers vegna ágreiningur um framkvæmd nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri þar sem framlag ríkísins er föst upphæð á ári var ekki leyst með hagsmuni þeirra sem þurftu þjónustuna í fyrirrúmi?
Efstaleiti, 19. Janúar 2023
Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ