Covid-19 smitum hefur fjölgað hratt á Norðurlandi síðustu daga. Staðan er verst á Akureyri en þar eru 78 manns með virkt smit og 990 í sóttkví.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Á Húsavík eru 5 með virkt smit og 223 í sóttkví sem hefur talsverð áhrif á allt samfélagið.

Miklar áhyggjur eru af stöðunni og er talið nauðsynlegt að allir hugi að sinni stöðu og meti hvað hver og einn geri gert til að hefta þá útbreiðslu smita. Flestir þeirra smitaðra eru börn og unglingar á grunnskólaaldri.

Þá hefur aðgerðarstjórn LSNE óskað eftir því að viðburðum, æfingum og félagsstarf barna og unglinga á grunnskólaaldri sé frestað fram yfir næstu helgi. Vonast sé til að ná utan um stöðuna sem allra fyrst.

Foreldrar eru hvattir til að huga vel að börnum sínum og fylgjast vel með fái þau einhver einkenni Covid.

Forsetinn í smitgát

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands væri kominn í smitgát eftir að hafa hitt hóp nemenda úr Valsárskóla á Svalbarðsströnd.