Yfir þrjátíu manns munu hlaupa fyrir hina sjö ára gömlu Klöru í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram á laugardaginn næstkomandi.

Áfram Klara er nýstofnað góðgerðafélag stofnað fyrir Klöru litlu sem slasaðist alvarlega í hoppukastalaslysinu á Akureyri í byrjun júlí í fyrra.

Klara hefur verið í stífri endurhæfingu frá því að slysið átti sér stað en nú er ljóst að hún mun þurfa lifa við einhverja hreyfihömlun og málörðugleika út ævina.

Ásthildur Björnsdóttir, frænka Klöru og ein af stofnendum félagsins, segir magnað að sjá hversu mikinn meðbyr og hvatningu hópurinn Áfram Klara hefur fengið.

Upphaflega hafi hópurinn eingöngu ætlað að taka þátt í hálfum Landvætti sem Fréttablaðið greindi frá í byrjun janúar síðastliðnum. Ásthildur segir hópinn þó hvergi nærri hættan og að nú hafi góðgerðafélagið Áfram Klara verið stofnað.

Fann styrk í útivistinni

Að sögn Ásthildar fann stórfjölskylda Klöru og fjölskyldu hennar leið til að styðja við þau á þessum erfiða tíma með því að stunda hreyfingu og útivist með móður Klöru. Hún hafi fundið mikinn styrk í útivistinni.

Félagið hefur nú stækkað og hafa nú þegar hátt í þrjátíu manns skráð sig í Reykjavíkurmaraþonið til styrktar Klöru og fjölskyldu hennar.

Ásthildur segir ömmu Klöru og ömmusystur meðal þeirra sem ætla reima á sig hlaupaskóna á laugardaginn. „Þær hafa ekki reimt á sig hlaupaskóna áður,“ segir Ásthildur og hlær.

Hvatningarstöð á Eiðsgranda

Þá er leikstjórinn og fyrrverandi landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson meðal hlaupara sem styðja við Klöru og Fannar Guðmundsson en hann hljóp til styrktar vökudeildar Barnaspítala Hringsins í fyrra en sonur hans, Theodór Máni, lést í október í fyrra eftir erfiða baráttu við alvarlegan erfðasjúkdóm.

Ásthildur segir Áfram Klöru hópinn verða með hvatningarstöð á Eiðsgranda við Grandaveg eftir átta kílómetra hlaup á laugardag en hún hvetur fólk til að mæta og hvetja hlauparana áfram.

Áheita- og styrktarsíðu Áfram Klöru má finna á Facebook og fyrir Reykjavíkurmaraþonið má finna allar upplýsingar hér en nú hafa safnast 1.595.000 krónur til styrkar Klöru.

Þeir sem vilja geta styrkt Klöru og fjölskyldu hennar í gegnum eftirfarandi reikning:

Kennitala: 470722-0450

Banki: 0133-26-006773