Matvælastofnun (MAST) hefur gefið út 28 leyfi á fimm árum fyrir að eitra vegna laxalúsar á Vestfjörðum. Nú síðast um miðjan september á sjö stöðum í Tálknafirði, Arnarfirði og Patreksfirði. Íslenski náttúrverndarsjóðurinn (IWF) bendir á að þetta sé stórskaðlegt fyrir lífríkið og staðfesti að lús sé mikið vandamál á Vestfjörðum.

Annars vegar er um að ræða skordýraeitrið Alpha Max (deltametrín) sem er sett beint út í sjókvíarnar og hins vegar lyfjablandað fóður er nefnist Slice Vet (emamektín), sem fer út í sjóinn annað hvort sem úrgangur laxins eða sem umframfóður sem fellur til botns. Eitrinu er beint gegn lúsinni sem er skeldýr.

„Það liggur í hlutarins eðli að eitrið virkar líka á önnur skeldýr. Þess vegna hefur þetta áhrif langt út fyrir kvíarnar sjálfar,“ segir Jón Kaldal, talsmaður IWF. Norskar rannsóknir sýni að eitrið leggist á marfló, rækju og humarlirfur sem dæmi. Samkvæmt skoskri rannsókn frá árinu 2019 finnst emamektín í 97 prósentum skeldýra á þeim stað þar sem eitrið hefur verið notað og hefur slæm áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.

Á málþingi Landssambands fiskeldisstöðva á Ísafirði í maí árið 2016 lét Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir fiskisjúkdóma hjá MAST, hafa eftir sér að laxalúsin yrði ekki sama vandamál hér og í nálægum löndum. „Sökum norðlægrar legu Íslands, og ekki síst þeirra svæða sem heimilt er að ala lax í sjókvíum frá 2004, á lúsin erfitt uppdráttar og verður vart sambærilegt vandamál og hjá nágrannaþjóðum okkar,“ sagði hann. Þetta var ítrekað rúmu ári seinna, á málþingi Fjallabyggðar um sjókvíaeldi, í júní 2017.

Sama ár kom út rannsókn Margrétar Thorsteinsson hjá Náttúrustofu Vestfjarða þar sem kom fram að marktækt meira lúsasmit væri á suðursvæði Vestfjarða, þar sem sjókvíaeldið var, en norðursvæðinu. Ef notað væri sama eftirlitskerfi og Norðmenn gera, hefðu Patreksfjörður, Arnarfjörður, Dýrafjörður og Tálknafjörður verið rauðmerktir á ákveðnum tímabilum vegna smits og yrði gert að fækka fiskum í kvíum þar. Eins og áður sagði hafa verið gefin út 28 eitrunarleyfi vegna lúsar frá þessu ári.

Á Austfjörðum hefur þurft að slátra löxum vegna sjúkdómsins blóðþorra en enn hefur lúsin ekki komið upp. „Það er ekkert í náttúrulegu umhverfi Austfjarða sem segir að þetta geti ekki gerst þar. Eldið fór þar seinna af stað og er minna að umfangi,“ segir Jón. Þegar lús finni fisk sem hýsil fjölgi hún sér hratt. „Þegar laxalús kemst í sjókvíar verður alger sprenging í fjölgun,“ segir hann. En í hverri kví eru um 120 þúsund laxar og kannski 10 til 11 kvíar á hverju svæði sem gerir meira en eina milljón laxa.

Samkvæmt Jóni skortir hér á landi kerfi framleiðslustýringar, áhættumat vegna lúsar þegar gefin eru út leyfi og viðurlög á fyrirtækin þegar lúsin fer yfir ákveðin mörk. Þetta sé á ábyrgð bæði löggjafans og MAST sem ráðgjafarstofnunar.

„Okkar lína er að sjókvíaeldi eigi ekki rétt á sér með núverandi aðferð. Opnir netapokar eru úrelt tækni. Ef á að stunda eldi í sjó verður að standa miklu betur að því og gera fyrirtækin ábyrg. Áhættan er lífríkisins og í dag er reikningurinn sendur þangað,“ segir Jón.