„Það hafa mælst svona 650 skjálftar á sólarhring síðustu þrjá daga, en stærðin á þeim hefur farið minnkandi. Þannig að þetta eru fleiri smáskjálftar og nokkrir stærri sem fylgja,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, um jarðhræringar á Reykjanesskaga.

Aðspurður hvort þetta svipi til aðstæðna þegar gaus við Fagradalsfjall í fyrra segir Einar að það sé ekki hægt að bera þetta saman.

„Við erum að sjá annað skjálftamynstur en var fyrir gosið við Fagradalsfjall, en það er einhver þensla úr iðrum jarðar og skaginn er að rísa.“

Íbúum Grindavíkur var boðið til fundar í gær til að ráða óvissustigið sem nú væri upp komið vegna jarðhræringa á á Reykjanesskaga.
Fréttablaðið/Anton

Einar segir erfitt að meta hvað gerist í framhaldinu. „Það er tvenns konar atburðarás sem hægt er að sjá fyrir sér. Annars vegar að skjálftavirknin koðni smám saman niður og ekkert muni eiga sér stað, eða að hún aukist til muna og við munum sjá þá einhverja aðra atburðarás fara í gang.

Það er samt sem áður ekkert sem bendir til þess á þessum tímapunkti að það muni gerast strax,“ segir Einar og telur það mikilvægt að svæðið verði vaktað, það sé það eina sem hægt er að gera á þessum tímapunkti.