Sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna, CDC, hefur nú gefið það út að um það bil 5800 ein­staklingar sem hafa verið full­bólu­settir gegn CO­VID-19 hafi greinst með veiruna en af þeim urðu nokkrir al­var­lega veikir, þar sem 396 þurftu á inn­lögn að halda, og 74 látist. Þetta kemur fram í frétt CNN um málið.

Verið er nú að rann­saka hverjir séu lík­legastir til að sýkjast þrátt fyrir bólu­setningu en af þeim til­fellum sem hafa verið til­kynnt voru sýkingar hjá öllum aldurs­hópum. Um það bil 40 prósent sýkinga voru þó hjá ein­stak­lingum eldri en 60 ára og 65 prósent hjá konum. Í tæp­lega 30 prósent til­fella var um ein­kenna­lausa sýkingu að ræða.

„Mælt er með því að allir sem geta séu bólu­settir um leið og kostur er á. Þá er á­fram mælt með því að fólk sem hefur verið bólu­sett að fullu grípi til ráð­stafana í al­mennings­rýmum, eins og að nota grímu, fylgi fjar­lægðar­tak­mörkunum, forðast marg­menni og illa loft­ræst rými, og þvoi sér oft um hendur,“ segir stofnunin.

77 milljón manns lokið bólusetningu

Mat­væla- og lyfja­eftir­lit Banda­ríkjanna, FDA, hefur veitt þremur bólu­efnum neyðar­heimild frá því í desember, bólu­efni Pfizer/BioN­Tech, bólu­efni Moderna, og bólu­efni Jans­sen, en í sumum ríkjum hefur bólusetning með Janssen verið stöðvuð á meðan mögulegar aukaverkanir eru kannaðar.

Rúm­lega 195 milljón skammtar hafa þegar verið gefnir í Banda­ríkjunum og hafa um 77 milljón manns lokið bólu­setningu.

Bólu­efnin eru með mis­munandi virkni, bólu­efni Pfizer og Moderna eru bæði með um 95 prósent virkni eftir tvo skammta sam­kvæmt klínískum rann­sóknum. Bólu­efni Jans­sen er þó með tölu­vert minni virkni, eða 66 prósent, en á móti kemur að að­eins einn skammt þarf af því bólu­efni.

Það er því ekki ó­eðli­legt að ein­hverjir sem hafa verið bólu­settir sýkist samt af veirunni og veikist jafn­vel al­var­lega en gera má ráð fyrir fleiri slíkum til­fellum eftir því sem bólu­setningum vindur á­fram. Þá getur virkni bólu­efnanna verið minni á ný af­brigði veirunnar og er það meðal annars til skoðunar.