Þeir leigubílstjórar sem lögðu atvinnuleyfi sitt inn til Samgöngustofu þegar faraldurinn geisaði hafa alls ekki allir snúið aftur á götuna. Innlögð leyfi voru tæplega þrisvar sinnum fleiri í mars síðastliðnum en í sama mánuði árið 2019, þegar faraldurinn skall á.

Þegar innlagnir náðu hámarki í faraldrinum voru 120 atvinnuleyfi inniliggjandi tímabundið. Í mars síðastliðnum voru 86 atvinnuleyfi í tímabundinni innlögn en til samanburðar voru 38 atvinnuleyfi í slíkri innlögn í mars 2019.

Þetta kemur fram í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Fréttablaðsins. Í svarinu segir að leyfishöfum sé heimilt að leggja atvinnuleyfi sitt tímabundið inn í allt að fjögur ár. Með því er ekki verið að skila inn leyfinu heldur er það ekki nýtt í tiltekinn tíma.

Frá því að samkomutakmörkunum var aflétt hafa djammarar kvartað undan því að löng bið sé eftir leigubíl í miðborg Reykjavíkur um helgar.

Sigurður Ingi Jóhannsson inn­viða­ráðherra hyggst bregðast við þessu með fjölgun á þeim leyfum sem heimilt er að gefa út á suðvesturhorni landsins og fara þau úr 580 í 680, samkvæmt drögum að nýrri reglugerð. Um er að ræða takmörkunarsvæði I, sem er höfuðborgarsvæðið og Suðurnes.

Fjöldi leyfa hefur staðið í stað í áratugi. Forsvarsmenn leigubílafyrirtækja hafa bent á að það vanti allt að 200 ný leyfi til að takast á við fyrirséðan fjölda ferðamanna í sumar.