Hátt í hundrað sjálf­boða­liða eru nú í Dyflinni að að­stoða við leit að Jóni Þresti Jóns­syni. Ekkert hefur sést til Jóns í ná­kvæm­lega tvær vikur í dag.

Sara McGu­iness, fjöl­skyldu­vinur Jóns Þrastar Jóns­sonar, sér um skipu­lagningu leitarinnar og skráningu sjálf­boða­liða. Hún segir að hátt í 80 manns hafi komið í dag til að skrá sig í leit. Auk þeirra rúm­lega 20 sem eru í Dyflinni frá Ís­landi telja þau því hátt 100 manns. Hún segir að fólk hafi mætt í skráningu um klukkan 9.30 og þau hafi hafið leitina um klukku­stund síðar eftir að allir voru skráðir, búið að skipta öllum í hópa og gefa fólki leið­beiningar

Sautján leitarhópar

„Hópnum er skipt í sau­tján leitar­hópa og leitað er á öllu svæðinu nærri Bonnington hótelinu. Hann sást síðast á mynda­vél nærri Hig­hfi­elds spítalanum,“ segir Sara í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Hún segir að hann hafi að því loknu gengið rösk­lega í norður­átt og hefði átt að sjást á mynda­vél á bar þar nærri, en þar hafi hann ekki sést.

„Við tökum því einn kíló­metra í radíus þar í kring. Við förum í öll hús og erum á ná­kvæm­lega sama tíma dags og hann hvarf fyrir tveimur vikum síðan. Við erum að vona að fólk sé rútínu­fólk og fari alltaf að versla í matinn eða sé að labba þarna fram hjá á þessum tíma dags og það hafi séð hann,“ segir Sara.

Hún segir að það séu hópar á öllum stöðunum þar sem hann sást síðast með vegg­spjöld og flyer-a til að dreifa og sýna fólki.

Í leitar­hópunum er mikill fjöldi írskra björgunar­sveitar- og slökkvi­liðs­manna sem ekki hafa verið kallaðir form­lega til, en taka þátt með ó­form­legum hætti. Hún segir að fólk sé á bið­skýlum strætis­vagna og bæði hoppi inn í strætó og ræði við fólk í bið­skýlunum.

„Við erum með mikla dreifingu á fólki og mikla hjálp. Það er enn fólk að týnast inn í leitar­mið­stöðina sem vill að­stoða við leitina. Þetta eru alveg stór­kost­leg við­brögð og við erum mikið þakk­lát fyrir það. Við erum mjög von­góð að finna eitt­hvað,“ segir Sara

Þurfa frekari vísbendingar til að kalla út björgunarsveitir

Fjöl­skyldan vonast þó til þess að írskar björgunar­sveitir verði ræstar út í dag. Hún segir að bæði utan­ríkis­ráðu­neytið og sendi­ráðið hafi verið dug­leg að þrýsta á lög­regluna, en að lög­reglan hafi greint þeim frá því að þau þurfi fleiri vís­bendingar til að ræsa sveitirnar út. Hún segir að lög­reglan hafi sem dæmi rætt við alla póker­spilarana sem Jón spilaði við kvöldið áður en hann hvarf og að þar hafi allir greint frá því að þeir hafi skilið í góðu. 

„Lög­reglan er búin að fylgja öllum vís­bendingum sem þau hafa og þurfa frekari vís­bendingar til að ræsa alla út og kalla til dróna og annað,“ segir Sara.

Finni þau ein­hverjar frekari vís­bendingar í dag um hvar Jón gæti verið staddur verða lík­lega kallaðir til hundruð manna.

„Lög­reglan hefur beðið okkur að leita ekki á svæðum þar sem eru garðar og brunnar og annað. Því þeir búast svo fast­lega við því að þeir verði kallaðir út og vilja ekki að við skemmum sönnunar­gögn sem gæti verið að finna þar,“ segir Sara.

Hún segir mikill fjöldi á­bendinga hafi borist frá leitar­hópnum og þau séu full af von um að finna eitt­hvað sem gæti út­skýrt hvarfið.

„Þetta er svo ó­venju­legt. Þetta er svo of­boðs­lega ó­líkt honum og úr hans karakter. Hann er hamingju­samur maður, góður faðir og vinur vina sinna. Hann hafði enga á­stæðu til að fara sér að voða og við erum öll hér því við vitum að það er ekki það sem gerðist hér. Við erum öll hand­viss um það,“ segir Sara að lokum.

Vongóð um að vísbendingar finnist í dag

Jón Þröstur sást síðast um klukkan 11 á laugar­dags­morgun 9. febrúar í Whitehall í Dyflinni. Ekkert hefur spurst til hans síðan. Hann er 41 árs og um 190 sentí­metrar á hæð og eru þeir sem telja sig hafa upplýsingar um Jón beðnir um að hafa sam­band við lög­regluna á Ír­landi, en Face­book-síðu hennar má sjá hér fyrir neðan.

Fjölskylda Jóns hóf söfnun fyrir leitinni og hefur nú safnað nærri fimm þúsund evrum sem samsvara um 670 þúsund íslenskum krónum. Hægt er að styrkja söfnunina hér.

Í færslu sem fjölskyldan birti á leitarsíðu á Facebook segir að þau séu verulega þakklát fyrir allan þann stuðning sem þeim hefur borist. Þau vonast til þess að frekari vísbendingar finnist í dag. Hægt er að fylgjast með leitinni og koma ábendingum til þeirra á síðunni, sem má sjá hér að neðan.