Um fimm þúsund manns, full­orðnir og börn, eru nú látin í kjöl­far tveggja stórra jarð­skjálfta í Tyrk­landi og Sýr­land í gær. Á vef Reu­ters segir að um 3.700 séu látin í Tyrk­landi og um 1.500 í Sýr­landi. Um tuttugu þúsund eru talin slösuð og er víða verið að leita að fólki í rústum bygginga sem hafa hrunið. Al­þjóða­heil­brigðis­stofnun hefur varað við því að mann­fall geti marg­faldast á næstu dögum, upp í um tuttugu þúsund manns.

Fyrstu jarð­skjálftinn reið yfir um miðja nótt, klukkan 4 að staðar­tíma. Sá var 7,8 á stærð og sá seinni um tólf tímum seinna og var 7,5 að stærð. Taldir hafa verið um 285 eftir­skjálftar.

Búið er að senda um 25 þúsund björgunar­liða á vett­vang og er talið að hátt í sex þúsund byggingar hafi hrunið á jarð­skjálfta­svæðunum.

Björgunar­að­gerðir eru erfiðar vegna veðurs en bæði er kalt og úr­koma mikil. Auk þess er víða raf­magns­laust og lítið sem ekkert bensín í sumum borgunum sem eru illa farnar eftir jarð­skjálftana, eins og Anta­kya.

Myndin er tekin í borginni Aleppo í Sýrlandi snemma í gær.
Fréttablaðið/EPA
Loftmynd tekin í borginni Hatay í Tyrklandi í morgun.
Fréttablaðið/EPA

Hjálparsamtök hafa fjölmörg hafið neyðarsöfnun vegna hörmunganna og hafa hér á Íslandi UNICEF, Barnaheill og Rauði kross Íslands sent frá sér neyðarkall. Hægt er að styrkja neyðarsafnanir þeirra á heimasíðum þeirra.

Uppruni fyrsta skjálftans í gær og áhrif hans.
Mynd/Graphic News