Bólu­setningar eru nú hafnar aftur af fullum krafti í Laugar­dals­höll en bólu­setningar hófust á ný í vikunni eftir sumar­leyfi. Að því er kemur fram í til­kynningu á vef Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins sátu starfs­menn þó ekki auðum höndum á þeim tíma.

„Það er gaman að nefna að meðan á svo­kölluðu 4 vikna sumar­leyfi bólu­setninga hjá heilsu­gæslunni stóð, bólu­settum við alls 10.901 ein­stak­ling. Þar á meðal barns­hafandi konur, starfs­fólk skóla sem þurfti örvunar­skammt og alla aðra sem óskuðu eftir bólu­setningu,“ segir í til­kynningunni.

Búið að boða alla sem fengu Janssen

Nú ættu allir þeir sem bólu­settir voru með bólu­efni Jans­sen í vor og sumar að vera búin að fá boð í örvunar­skammt. Allir sem hafa ekki mætt í bólu­setningu á boðuðum tíma geta mætt virka daga milli 10 og 15 á Suður­lands­braut 34.

Í heildina fengu tæp­lega 21.500 manns örvunar­skammt í vikunni, ýmist með bólu­efni Pfizer eða bólu­efni Moderna. Færri virðast hafa mætt en voru boðaðir en gert var ráð fyrir um 32 þúsund manns í örvunar­skammt.

Eldra fólk bólusett sex mánuðum eftir seinni skammt

Í gær var síðan hafist handa við að bólu­setja fólk fætt 1931 eða fyrr með þriðja skammtinum af mRNA bólu­efni en tæp­lega 3.400 ein­staklingar mættu í þriðja skammtinn með Pfizer í gær.

Miðað er við að sex mánuðir séu liðnir frá seinni sprautu þegar þriðji skammturinn er gefinn og því verður fólki sem er næst í aldurs­röðinni boðið í örvunar­skammta næstu vikur, þegar sá tími er liðinn.

Börnin bólusett í næstu viku

Á mánu­dag og þriðju­dag í næstu viku verður síðan hafist handa við að bólu­setja börn á aldrinum 12 til 15 ára en þau verða bólu­sett með bólu­efni Pfizer og er þeim gert að mæta á á­kveðnum tíma, eftir því hve­nær þau eru fædd.

Börn sem verða 12 ára eftir 1. septem­ber verða bólu­sett síðar í haust.