Lyfja­stofnun hefur nú fengið í heildina 3.064 til­kynningar vegna gruns um auka­verkun í kjöl­far bólu­setningar frá því að byrjað var að bólu­setja gegn Co­vid-19 síðast­liðinn desember en af þeim til­kynningum eru 195 metnar al­var­legar. Frá upp­hafi hefur 31 and­lát í kjöl­far bólu­setningar verið til­kynnt.

Hlut­falls­lega flestar til­kynningar um auka­verkanir hafa borist í kjöl­far bólu­setningar með bólu­efni Moderna en það var notað í auknum mæli í ágúst sem örvunar­skammtur fyrir þá sem fengu upp­runa­lega bólu­efni Jans­sen. Þá hefur bólu­efni Pfizer einnig verið notað í örvunar­skammta.

Verið að endurræsa kerfið með örvunarskammti

„Það er ekkert skrýtið þó það komi fram meiri auka­verkanir við örvunar­skammt, það er verið að endur­örva kerfið, en þetta er eigin­lega ekki af þeirri stærðar­gráðu að það sé hægt að lesa mikið úr þessu,“ segir Rúna Hauks­dóttir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofnunar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að­spurð um hvort það sé lík­legra að fólk veikist frekar eftir örvunar­skammt segir Rúna að svo gæti verið. „Nú er verið að setja inn örvunar­skammt og þá fer fram endur­ræsing og það er kannski ekki verið að ræsa kerfið á sama hátt, þannig það getur vel verið að fólk verði veikara,“ segir Rúna.

Hún bætir þó við að þau séu ekki að horfa fram á aukningu á al­var­legum til­kynningum eftir örvunar­skammt heldur upp­lifi fólk frekar þekktar al­gengari auka­verkanir, á borð við hita eða ó­þægindi á stungu­stað. Þá geti það spilað inn í að unga fólkið finni frekar fyrir auka­verkunum þar sem það er með virkara ó­næmis­kerfi.

52 tilkynningar um blóðtappa og 16 um hjartavandamál

Nokkrar þekktar auka­verkanir eru fyrir þau bólu­efni sem notuð eru hér á landi, annars vegar eru það hjarta­vöðva- eða gollurs­húss­bólgur fyrir mRNA bólu­efni, frá Pfizer og Moderna, og blóð­tappa og blóð­sega­vanda­mál fyrir bólu­efni AstraZene­ca og Jans­sen. Um er að ræða mjög sjald­gæfar auka­verkanir sem getið er um í fylgi­seðlum bólu­efnanna.

Að sögn Rúnu hefur Lyfja­stofnun fengið 52 til­kynningar um blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar, 26 vegna bólu­efnis AstraZene­ca og tvær fyrir bólu­efni Jans­sen. Aftur á móti hafa borist 21 til­kynning fyrir bólu­efni Pfizer og þrjár fyrir Moderna, þrátt fyrir að það sé ekki skráð auka­verkun fyrir þau bólu­efni. Að sögn Rúnu er þó mikil­vægt að hafa í huga að sjaldnast sé um or­saka­sam­hengi að ræða.

Hvað auka­verkanir eftir bólu­setningu með mRNA bólu­efnum varðar hafa sjö til­kynningar borist um hjarta­vöðva­bólgu og níu fyrir gollurs­húss­bólgu. Það er voða­lega lítið hægt að segja til um, þetta eru þekktar mjög sjald­gæfar auka­verkanir af Pfizer og Moderna en þetta hefur líka verið til­kynnt hjá AstraZene­ca,“ segir Rúna.

Erfitt að bera saman bóluefni

Þegar al­mennt er litið til auka­verkana segir Rúna það erfitt að bera saman bólu­efnin og tíðni auka­verkana, þar sem mis­jafnt er eftir hópum hvaða bólu­efni þau fengu, yngra fólk hafi til að mynda fengið meira af Jans­sen en eldri meira af bólu­efni Pfizer. Þá sé erfitt að bera tíðni auka­verkana hér á landi saman við önnur lönd þar sem þau nota ekki alltaf sömu bólu­efni á sama hátt.

„Það er ekki hægt að bera þetta alveg saman en við náttúru­lega berum okkur saman við Evrópsku lyfja­stofnunina og þetta er allt fært inn í þennan evrópska lyfja­gáttar­grunn, þar er bara verið að skoða hvort við sjáum ein­hver merki [um tengdar auka­verkanir],“ segir Rúna.

Al­var­legum til­kynningum fjölgar um átta frá því að síðasta sundur­liðun Lyfja­stofnunar var birt, þar á meðal er um að ræða eitt and­lát. Í heildina eru lang­flestar til­kynningar fyrir bólu­efni Pfizer og kemur það ekki á ó­vart þar sem lang­flestir fengu það bólu­efni. Næst á eftir kemur AstraZene­ca, sem næst flestir hafa fengið.

Hægt er að sjá sundurliðun tilkynninga eftir bóluefnum hér fyrir neðan.