Um það bil 158 milljón manns í Bandaríkjunum hafa nú fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn COVID-19 og hafa tæplega 124 milljón manns verið fullbólusettir samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC.
Þannig hafa hátt í 60 prósent fullorðna í Bandaríkjunum fengið að minnsta kosti einn skammt og rúmlega 47 prósent verið fullbólusett. Í heildina hafa rúmlega 274,4 milljón skammtar verið gefnir en síðastliðna sjö daga hefur meðalfjöldi gefinna skammta verið um 1,8 milljón á hverjum degi.
Bólusettir þurfa ekki grímu
Bandarísk stjórnvöld tilkynntu síðastliðinn fimmtudag að allir þeir sem væru fullbólusettir væru undanþegnir grímuskyldu í flestum kringumstæðum. Fjölmörg fyrirtæki víða um Bandaríkin hafa frá þeim tíma fallið frá grímuskyldu hjá fullbólusettum, nema ef ríkisyfirvöld mæla gegn því.
Ákvörðunin hefur verið verulega umdeild víða og voru ekki allir á eitt sáttir með að þeir sem væru bólusettir þyrftu ekki grímu. Var því haldið fram að um pólitíska ákvörðun væri að ræða en CDC þvertók fyrir það og sagði að ákvörðunin væri í samræmi við vísindin, sem væru sífellt að þróast.
Erfitt að treysta fólki
Sérfræðingar og eru enn fremur uggandi yfir þeirri staðreynd að auðvelt sé að ljúga um bólusetningu og í flestum tilfellum þurfi að treysta á að einstaklingar séu hreinskilnir um hvort þeir hafi verið bólusettir eða ekki. Yfirvöld í ákveðnum ríkjum hafa tekið undir þessar áhyggjur og segja að það gangi ekki upp að mönnum sé treyst til að fylgja reglum án eftirlits.
Þrátt fyrir að fjölmargar borgir hafa vikið frá grímuskyldu fyrir bólusetta munu aðrar borgir bíða með afléttingu þar til fleiri hafa verið bólusettir. Þá hafa aðrir aflétt grímuskyldu utandyra en haldið henni innandyra, jafnvel þó fólk sé bólusett. Í Kaliforníu verður grímuskyldu til að mynda ekki aflétt fyrr en um miðjan júní.
Several days since the CDC said fully vaccinated Americans can -- for the most part -- ditch their masks, more places are announcing changes to their mask policies, or doing away with the requirement altogether. https://t.co/Ca8S6BpFM0
— CNN (@CNN) May 18, 2021