Um það bil 158 milljón manns í Banda­ríkjunum hafa nú fengið að minnsta kosti einn skammt af bólu­efni gegn CO­VID-19 og hafa tæp­lega 124 milljón manns verið full­bólu­settir sam­kvæmt upp­lýsingum frá Sótt­varna­stofnun Banda­ríkjanna, CDC.

Þannig hafa hátt í 60 prósent full­orðna í Banda­ríkjunum fengið að minnsta kosti einn skammt og rúm­lega 47 prósent verið full­bólu­sett. Í heildina hafa rúm­lega 274,4 milljón skammtar verið gefnir en síðast­liðna sjö daga hefur meðal­fjöldi gefinna skammta verið um 1,8 milljón á hverjum degi.

Bólusettir þurfa ekki grímu

Banda­rísk stjórn­völd til­kynntu síðast­liðinn fimmtu­dag að allir þeir sem væru full­bólu­settir væru undan­þegnir grímu­skyldu í flestum kring­um­stæðum. Fjöl­mörg fyrir­tæki víða um Banda­ríkin hafa frá þeim tíma fallið frá grímu­skyldu hjá full­bólu­settum, nema ef ríkis­yfir­völd mæla gegn því.

Á­kvörðunin hefur verið veru­lega um­deild víða og voru ekki allir á eitt sáttir með að þeir sem væru bólu­settir þyrftu ekki grímu. Var því haldið fram að um pólitíska á­kvörðun væri að ræða en CDC þver­tók fyrir það og sagði að á­kvörðunin væri í sam­ræmi við vísindin, sem væru sí­fellt að þróast.

Erfitt að treysta fólki

Sér­fræðingar og eru enn fremur uggandi yfir þeirri stað­reynd að auð­velt sé að ljúga um bólu­setningu og í flestum til­fellum þurfi að treysta á að ein­staklingar séu hrein­skilnir um hvort þeir hafi verið bólu­settir eða ekki. Yfir­völd í á­kveðnum ríkjum hafa tekið undir þessar á­hyggjur og segja að það gangi ekki upp að mönnum sé treyst til að fylgja reglum án eftir­lits.

Þrátt fyrir að fjöl­margar borgir hafa vikið frá grímu­skyldu fyrir bólu­setta munu aðrar borgir bíða með af­léttingu þar til fleiri hafa verið bólu­settir. Þá hafa aðrir af­létt grímu­skyldu utan­dyra en haldið henni innan­dyra, jafn­vel þó fólk sé bólu­sett. Í Kali­forníu verður grímu­skyldu til að mynda ekki af­létt fyrr en um miðjan júní.