Veitingastaður á höfuðborgarsvæðinu braut sóttvarnarlög þegar á fimmta tugi gesta komu þar saman til að horfa á íþróttaviðburð.

Lögreglan mætti á staðinn rétt eftir klukkan sex í gærkvöldi og settu út á fjarlægðarmörk milli borða, óskýr mörk milli hólfa á staðnum, skort á sprittbrúsum og grímuleysi gesta.

Ekki kemur fram hvaða íþróttaviðburð gestir voru að horfa á en ætla má að þarna hafi verið komnir saman vonsviknir fylgismenn Liverpool og Manchester United að fylgjast með liðum sínum enda leikinn á markalausu jafntefli á Anfield.

Í dagbók lögreglu er ekki greint frá í hvaða hverfi þetta á að hafa gerst en þetta var í umdæmi lögreglustöðvar 3 sem annast Kópavog og Breiðholt. Lögreglan mun skrifa skýrslu út af sóttvarnarbrotunum.

Mikið um innbrot

Lögreglan þurfti að sinna nokkrum útköllum vegna innbrota. Þegar klukkan var að ganga fimm í nótt fékk lögreglan tilkynningu um mann sem reyndi að brjóta sér leið inn í fyrirtæki í miðbænum. Maðurinn gafst upp og kom sér í burtu og lögreglumenn handtóku hann skammt frá vettvangi og vistuðu hann í fangaklefa.

Rétt fyrir miðnætti var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Háaleitis- og Bústaðahverfi en þar hafið innbrotsþjófur komist í skiptimynt í sjóðsvél.

Í umdæmi lögreglustöðvar 4, sem sinnir Grafarvogi, Mofellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um skemmdarverk og tilraun til innbrots í bifreið og einnig um þjófnað úr verslun. Eins fékk lögreglan tilkynningu um eignaspjöll í heimahúsi klukkan 01:26.