Alls hafa 294 fengið greidd út hlutdeildarlán síðan stjórnarfrumvarp Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra varð að lögum fyrir rúmu ári. Heildarfjárhæð lánanna er 2.438 milljónir króna, samkvæmt svari Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Hlutdeildarlánin eru úrræði til fasteignakaupa sem ætlað er eignalitlum og tekjulágum. Kaupandi leggur fram 5 prósent sjálfur af kaupverði í útborgun og tekur húsnæðislán fyrir 75 prósentum kaupverðs. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir svo hlutdeildarlán fyrir allt að 20 prósentum kaupverðs.

Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni. Lántaki endurgreiðir lánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstíma. Hlutdeildarlánið er veitt til tíu ára en heimilt er að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, mest til 25 ára alls. Hlutdeildarlánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og hækkar því og lækkar í samræmi við það.

Lánin eru hugsuð sem úrræði fyrir þá sem þurfa aðstoð við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Einkum fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum.

Tilefni frumvarpsins var að ríkisstjórnin setti það sem eitt af markmiðum í sáttmála um stjórnarsamstarfið að bæta stöðu ungra og tekjulágra á húsnæðismarkaði.