Gjörningahópurinn Hatari segist styðja Arnmund Ernst Backman í áskorun leikarans gegn Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Arnmundur skoraði á Eyþór í keppni í sjómann til að útkljá hvort prótínmagn í vegan fæðu væri ábótavant. „Grænmeti er bragðgott og næringarríkt og hefur komið sér vel á þessu ferðalagi,“ kemur fram í tilkynningu Hatara til Fréttablaðsins.

Vegan ólar

„Þótt ótrúlegt megi virðast eru um 95 prósent af búningum okkar vegan, hugsið ykkur álíka hlutfall í mötuneyti íslenskra stórfyrirtækja,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Liðsmenn Hatara telja vegan fæðu eiga heima á öllum borðum landsins.

Hatari er nú á tónleikaferðalagi um Evrópu og tróð upp í Lundúnum í gær. Í dag lá leið sveitarinnar í kryddjurtagarð í London þar sem kraftur þeirra var nýttur í vinnuafl. Mynd sem tekin var af meðlimum í dag sýnir Matthías Tryggva Haraldsson íklæddan bol með áletruninni „Grænmeti.“ Bolurinn er eflaust andsvar álíka bols Eyþór Arnalds þar sem á stóð „kjöt.“

Eftast um næringargildi grænmetis

Eyþór Arnalds birti mynd af sér í kjötbolnum á Facebook þar sem hann mótmælti tillögu frístundasviðs um að minnka fram­boð á dýr­af­urðum í grunn­skólum borgarinnar. „Skóla­matur í Reykja­vík gæti verið betri. Um það eru flestir sam­mála. En í stað þess að bæta matinn í grunn­skólum ætla fulltrúar "meiri­hlutans" í borgar­stjórn að skerða prótín­inni­hald fyrir reyk­vísk skóla­börn!“ kom einnig fram í færslu Ey­þórs.

Eyþór Arnalds sagðist í dag vera reiðubúinn til þess að keppa við Arnmund Ernst Backman í fótapressu eða hnébeygjum en ekki sjómanni. Arnmundur segist standa við áskorun sína. Báðir eru þeir til í að hittast og ræða málin.