Heimatilbúnar hasspípur úr plastflöskum hafa fundist eins og hráviði víða um Norðlingaholtshverfi. Áhyggjufullur íbúi deildi mynd af slíku verkfæri inn á íbúa­síðu hverfisins á dögunum og kvaðst hafa rekist á tug slíkra á göngu sinni í Björnslundi í vikunni. Aðrir íbúar kváðust einnig hafa rekið augun í slíkt á öðrum stöðum í hverfinu.

„Þetta er áhyggjuefni og eitthvað sem við hyggjumst skoða vel. Svona mál koma því miður reglulega upp en ég held þó að ástandið sé ekki verra í Norðlingaholti en öðrum hverfum borgarinnar,“ segir Þorkell Heiðarsson, formaður nýkjörins íbúaráðs Árbæjar sem Norðlingaholt tilheyrir.

Íbúaráð borgarinnar hafa nýlega tekið aftur til starfa eftir að starfsemin hafði legið niðri í eitt ár meðan starfið var endurhugsað af borgaryfirvöldum. Að sögn Þorkels verður fyrsta verk íbúaráðs Árbæjar að skipuleggja öflugt íbúarölt um hverfin sem tilheyra því og á hann von á að það hefjist fljótlega. „Við viljum frekar kalla þetta íbúarölt en foreldrarölt enda er það verkefni allra íbúa að passa upp á nærumhverfi sitt,“ segir Þorkell.