„Happdrætti Háskóla Íslands og Háskóli Íslands eru ábyrg fyrir því að rekstraraðili á þeirra vegum sé að þiggja lokunarstyrki fyrir eitthvað sem á að heita fjáröflun,“ segir Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.

Alma birti í dag afrit af skattagögnum sem sýna að eigendur fyrirtækisins Háspennu ehf., sem rekur spilavélar á vegum Happdrættis Háskóla Íslands, hafi greitt sér 12 milljónir í arð fyrir árið 2020, þrátt fyrir að hafa þegið lokunarstyrki frá ríkinu upp á 17 milljónir króna.

Eigendur Háspennu, sem er einkahlutafélag, eru Bjarni Vilhjálmsson og Jón Hjaltason.

Gögnin sýna að heildareignir félagsins í árslok hafi numið 238 milljónum, þar af eigið fé 209 milljónir.

„Skilyrðið og forsendan fyrir þessum spilakössum er fjáröflum. Það að skattgreiðendur séu farnir að greiða einhverjum einkaaðilum úti í bæ er náttúrulega bara galið,“ segir Alma í samtali við Fréttablaðið.

„Ríkissjóður hefði allt eins geta greitt eigendum þessa félags þennan pening bara beint,“ segir hún.

„Þetta eru 17 milljónir og fyrirtækið er að greiða eigendum 12 milljónir í arð. Á meðan þetta er að gerast, þá er fólk að spila í þessum spilakössum, að spila fyrir aleiguna sína. Fjölskyldur og makar spilafíkla eru að berjast í bökkum við að borga frístund og mat í hádeginu, af því að það er veikur spilafíkill inni á heimilinu sem er að spila fyrir allt lífsviðurværi fjölskyldunnar,“ segir Alma.

Aðspurð um ákjósanlegustu lausnina segir Alma að skynsamlegast væri að loka spilakössum alfarið. „Það virðist gæta misskilnings. En málið er að spilakassar hafa rosalega sérstöðu. Eini hópurinn sem stundar þá og spilar þá eru spilafíklar,“ segir hún.

„Fyrir 97 prósent almennings í landinu breytir þetta engu. Enginn verður var við það í Covid, þó að spilakassar loki. Þetta er ekki skerðing á lífsgæðum fyrir hinn almenna borgara,“ segir Alma.

Að sögn Ölmu þjónar reksturinn þannig eingöngu spilafíklum, þeim sem eiga kassana og einkaaðilum sem hagnist um hundruði milljóna á ári hverju.

Alma tekur dæmi um Vínbúðina til samanburðar. „Ef 97 prósent þeirra sem versluðu í vínbúðinni væru að drekka sig til dauða, þá myndum við alveg íhuga að loka vínbúðinni.“

Hún segir mikilvægt að skoða það sjónarmið en tekur fram að hún sé alls ekki talsmaður þess að „loka öllu,“ þar sem fólk sé að skaða sig á einhverju. „En þetta er rosalega einhæf vara og rosalega afmarkaður hópur sem er að nota hana.

Enginn verður var við það í Covid, þó að spilakassar loki. Þetta er ekki skerðing á lífsgæðum fyrir hinn almenna borgara

En hvað sýna rannsóknir erlendis varðandi takmarkanir á aðgengi að spilakössum? Ber það árangur í baráttunni við spilafíkn?

Alma svarar að erlendis hafi verið gripið til þess að takmarka aðgengi. „Að minnka virknina og hraðann og upphæðirnar. Ég veit að í Danmörku eru spilakassarnir orðnir þannig að þú getur lagt minna undir, leikirnir taka lengri tíma og vinningsupphæðirnar eru lægri. Það er búið að minnka tíðnina og hraðann.“

Hún segir að á fáum stöðum sé jafn gott aðgengi að spilakössum og á Íslandi. „Það virðist síðan vera að spilakassar Rauða krossins og Landsbjargar sem eru í nær umhverfi barna en þeir eru reknir af sameignarfélagi þessara samtaka, Íslandsspil sf. Svo er mjög varasamt að stofnanir eins og Háskóli Íslands og samtök eins og Landsbjörg og Rauði krossinn fari með þessa ábyrgð,“ segir Alma.

Hún segir að með því fyrirkomulagi verði þær stofnanir hagsmunaaðilar sem geta ekki beitt sér í opinberri umræðu. „Þau geta ekki talað um spilafíkn af því að þau eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta.“

Alma segir að eins og staðan sé núna, hafi einkaaðilar hagsmuna að gæta af því að heimsfaraldur gangi ekki yfir.

„Vinnandi fólk í landinu er að greiða einhverjum einkaaðilum skaðabætur.“

Fréttin var uppfærð kl. 00.38, 11. febrúar 2022