Andri Ólafsson, aðstoðarmaður rektors, segir hvorki þöggun né ritskoðun vera í gangi í máli upplýsingableðla um tanngreiningar sem voru fjarlægðir af veggjum Háskóla Íslands.

Samtökin No Borders segja áróðursefni Nýnasistasamtakanna Norðurvígis hafa fengið að hanga lengi á lóð háskólans áður en það var fjarlægt. Á hinn bóginn hafi skilaboð um tanngreinilegar og „hræsni háskólayfirvalda“ verið tekin niður samstundis, oft innan við klukkustund frá því að þeim var komið fyrir á töflum í háskólanum að sögn samtakanna.

Allt leyfilegt innan velsæmismarka

Andri segir í samtali við Fréttablaðið að umsjónarmenn fasteigna hafi fjarlægt plaggöt sem héngu á veggjum, en ekki á töflum. Viðfangsefnið hafi ekki verið ástæðan fyrir því að plaggötin hafi verið fjarlægð.

Einu kröfurnar sem háskólinn geri er að auglýsingar og tilkynningar séu ekki nafnlausar og að efni sé innan velsæmismarka. Það skipti ekki máli hvort inntakið sé þvert á skoðanir háskólaráðs eða rektors, svo fremi sem efnið sé ekki hatursorðræða, eins og í tilfelli bæklinga nýnasistasamtakanna.

Öllum sé heimilt og frjálst að dreifa hvers kyns bleðlum og plaggötum, svo fremi sem það sé gert á samþykktum upplýsingatöflum háskólans.

„Þeim er velkomið að hengja upp plaggötin sín á töflunum. Háskólinn er hvorki að reyna að ritskoða né þagga niður í þeim,“ segir Andri.