Nemandi sem fékk núll komma núll eftir meint svindl á lokaprófi í lífrænni efnafræði í Háskóla Íslands og var áminntur og sviptur rétti til endurtökuprófs hafði betur eftir kæru til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema.

Um var að ræða heimapróf, sem tekið var á tölvu. Nemandinn var sagður hafa svindlað á prófi í lok apríl með því að „hafa nýtt sér utanaðkomandi aðstoð, nánar tiltekið aðstoð af netsíðunni chegg.com“ við úrlausn á einum lið í prófinu. Hann sagði hins vegar „grunsemdir kennara“ ekki uppfylla ríka sönnunarbyrði.

Háskólinn sagði skýran ásetning til brots sannaðan. Nemandinn ítrekaði að skólinn hefði aðeins getgátur um að hann hafi gerst brotlegur. Þá væru reglur háskólans væru óskýrar og stönguðust á við lög um opinbera háskóla.

Kærunefndin segir að sérfræðiálit sem háskólinn aflaði og hafði verulega mikla þýðingu fyrir niðurstöðu málsins hefði átt að kynna fyrir nemandanum og gefa honum tækifæri til að tjá sig um álitið áður en ákvörðun hefði verið tekin. Því séu fyrrgreindar ákvarðanir sem og áminningin felld úr gildi.