Undanfarnar þrjár vikur hefur stærsta nýsköpunarnámskeið landsins staðið yfir í Háskólanum í Reykjavík en námskeiðið ber heitið Nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Um 500 nemendur úr öllum deildum háskólans tóku þátt í nýafstöðnu námskeiði.

Ásgeir Jónsson, skipuleggjandi námskeiðsins, segir að námskeiðinu sé ætlað að efla nemendur til að hugsa eins og frumkvöðlar.

„Nemendum er skipt upp í 100 þverfagleg teymi. Það er að segja nemendur vinna með öðrum nemendum úr mismunandi deildum skólans. Þau eiga að koma með hugmynd að fyrirtæki, frumgerð af vöru eða leysa tiltekið vandamál,“ segir Ásgeir og bætir við að á meðan námskeiðið sé fái nemendur aðgengi að kennurum og mentorum úr atvinnulífinu.

„Nemendur fá fyrirlestra um hugarflug, áætlanagerð og allt sem tengist frumkvöðlastarfinu. Þau geta síðan varið hverjum degi í að taka viðtöl við sérfræðinga, máta sínar hugmyndir og prófa sig áfram.“

Ásgeir segir að í lok námskeiðs sé uppskeruhátíð sem haldin sé í Háskólanum í Reykjavík þar sem nemendur kynni hugmyndir sínar.

„Uppskeruhátíðin í ár fór fram í gær en þar kynntu 100 teymi 100 hugmyndir um hvernig breyta megi heiminum. Þetta er skemmtilegur kúrs og snýst um að planta fræjum, fá nemendur til að kynnast því hvað felist í því að vera frumkvöðull og stofna fyrirtæki. Þetta er lifandi og skemmtilegt námskeið og nokkuð frábrugðið hefðbundnu háskólanámskeiði.“

Aðspurður hvort mörg fyrirtæki hafi sprottið upp úr þessu námskeiði segir Ásgeir svo vera.

„Það hafa þónokkur fyrirtæki verið stofnuð eftir þennan áfanga,“ segir Ásgeir. Námskeiðið sé hagnýtt þótt auðvitað sé langur vegur milli þess að koma með hugmynd og hrinda henni í framkvæmd.

„En við erum að bjóða upp á framhaldsnámskeið þannig að þeir sem hafa áhuga á að taka sína hugmynd lengra geta skráð sig á það námskeið og farið dýpra í vöruþróunina. Auk þess hafa teymi frá okkur keppt í keppnum á borð við Gulleggið með góðum árangri. Einnig höfum við sent lið í alþjóðlegu keppnina Venture Cup sem er heimsmeistaramót háskólanna í nýsköpun. Lið frá okkur hafa fengið viðurkenningu í þeirri keppni.“