Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs ​Háskóla Íslands, segir háskólanema uggandi. Óvissa sé um hvernig vorönninni verði lokið og við bætist áhyggjur af framfærslu hjá mörgum.

„Tæplega helmingur háskólanema er í meira en 50 prósent starfi og því ljóst að það er stór hópur í minna starfshlutfalli. Þessir nemendur falla þá ekki undir þessi úrræði ríkisstjórnarinnar og eru í erfiðri stöðu,“ segir Jóna Þórey. Stúdentaráð hafi óskað eftir því að einstaklingar í þessari stöðu fái atvinnuleysisbótarétt.

Ein aðgerða stjórnvalda vegna þrenginga sem nú steðja að er að heimila fyrirtækjum að lækka starfshlutfall launþega í 25 prósent. Atvinnutryggingasjóður greiðir bróðurpartinn af mismuninum.

Skilyrði er að fólk hafi verið í að minnsta kosti 45 prósent starfi. Starfsmenn í hlutastörfum falla milli skips og bryggju. Þetta fólk starfar gjarnan hjá fyrirtækjum í veitinga- og ferðaþjónustu sem verða hvað verst úti í núverandi aðstæðum.

„Það er ljóst að fyrir veitingahús sem hafa mikið af starfsfólki í hlutastarfi undir 45 prósent hlutfalli, munu þurfa að taka ákvörðun um hvort segja þurfi því starfsfólki upp strax. Ég tel því miður miklar líkur á að það verði niðurstaðan hjá mörgum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu.

Til viðbótar fyrrnefndri stöðu háskólanema má nefna að margir þeirra eru á leigumarkaði. „Félagsstofnun stúdenta hyggst bjóða upp á úrræði fyrir sína leigjendur en staða þeirra sem eru á almennum leigumarkaði er áhyggjuefni. Stjórnvöld hafa ekki boðað nein úrræði fyrir leigjendur.“

Stúdentaráð lét gera könnun á líðan háskólanema á þessum óvissutímum. Alls bárust svör frá um 1.548 nemendum. Á skalanum 1-10 svöruðu um 73 prósent nemenda því að líðan þeirra væri 5 eða lægra. „Þetta eru sláandi tölur sem við verðum að taka alvarlega og bregðast við," segir Jóna Þórey.