Fyrrverandi háseti á varðskipi hjá Landhelgisgæslunni tapaði í máli gegn Íslenska ríkinu, en hann stefndi ríkinu eftir að hann var rekinn úr starfi fyrir ítrekaða ósæmilega hegðun. Maðurinn krafðist bóta en fær engar samkvæmt dómnum sem féll í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Maðurinn hóf störf hjá Landhelgisgæslunni 9. september 2011 sem háseti á varðskipi og var tilkynnt í bréfi árið 2018 að til stæði að veita honum áminningu vegna tveggja tiltekinna atvika sem komu upp í starfi. Hins vegar fyrir að hafa mætt ölvaður og of seint á brúarvakt í varðskipinu Tý í júní 2017 og hins vegar fyrir að hafa sýnt yfirmanni hjá Landhelgisgæslunni ógnandi og ofbeldisfulla hegðun og hótað samstarfsmanni sínum ofbeldi á árshátíð starfsmanna í febrúar 2018.

Jafnframt var tilgreint eldra atvik, frá 28. nóvember 2015, þar sem hásetinn hefði sýnt af sér ósæmilega hegðun sem væri ósamræmanleg starfi Landhelgisgæslunnar, en ekki hefði leitt til áminningar á sínum tíma.

Hásetinn birti myndband af slysi þar sem skipverji féll næstum fyrir borð.
Fréttablaðið/Anton Brink

Stunginn í handlegginn

Maðurinn sagði um atvikið 2015 að hann hefði orðið fyrir tilefnislausri árás á göngu að nóttu til í erlendri höfn. Hann hafi verið stunginn í handlegginn með hnífi og þurft hafi að gera að sárum hans þegar hann kom til skips. Hann hafi vissulega verið í uppnámi eftir árásina, en hann mótmæli því að hafa aðhafst nokkuð sem bryti gegn starfsskyldum hans, eða gæfi tilefni til áminningar.

Um ölvun á vakt árið 2017 sagði maðurinn að hann hafi verið beðinn um það kvöldið áður af vakthafandi stýrimanni að fylgja brytanum, sem slasast hafði um borð, á bráðamóttöku á Akureyri, sem hann gerði. Stefnandi hafi greitt fyrir læknisþjónustuna kl. 03:07 um nóttina og snúið þá aftur til skips ásamt brytanum í leigubíl. Hafi þau verið komin að skipinu kl. 03:20, en skömmu síðar lauk vakt stefnanda. Sú staðhæfing að hann hafi verið ölvaður þetta kvöld sé ósönnuð og fjarvera hans hans hafi verið að beiðni yfirmanns. Stefnandi andmælti því að þetta atvik væri tiltekið sem forsenda áminningar.

Maðurinn hafnaði því að hafa viðhaft ógnandi tilburði eða ofbeldi á árshátíðinni og andmælti hann lýsingu samstarfsmanns um hótanir.

Myndband af slysi á Instagram var dropinn sem fyllti mælinn

Maðurinn fékk svo uppsagnarbréf eftir að hann tók efni úr öryggismyndavélum Landhelgisgæslunnar og birti á Instagram-reikningi sínum. Taldi hann ósanngjarnt að fá áminningu fyrir myndbandið þar sem yfirmenn hafi mætt birtingu og dreifingu slíks myndefnis með tómlæti og jafnvel frekar lagt blessun sína yfir hana, en sambærileg myndbönd hafi birst á Facebook síðu Landhelgisgæslunnar sjálfrar.

Í vörn Íslenska ríkisins kemur fram að myndbandið sýndi atvik á varðskipinu Þór þar sem annar af léttabátum varðskipsins velti á hliðina með þeim afleiðingum að skipverji féll næstum fyrir borð í sjóinn. Athugasemdin „Nærri stórslys“ var birt með myndbandinu. Það hafi verið til þess að kasta rýrð á störf Landhelgisgæslunnar.

„Í því myndbandi höfðu orðið mistök við losun léttabáts og af myndskeiðinu má ráða að það hefði getað farið illa í því tilviki. Slík tilvik beri starfsfólki að tilkynna sem öryggisbrot og fer málið þá í viðhlítandi ferli innan Landhelgisgæslunnar. Sú háttsemi stefnanda að taka þetta myndskeið og birta á samfélagsmiðli með athugasemdinni „Nærri stórslys“ virðist hafa haft þann eina tilgang að gera lítið úr öryggismálum hjá Landhelgisgæslunni. Það ségrafalvarlegt mál að starfsmaður löggæslustofnunar hegði sér með slíkum hætti.“

Maðurinn starfaði sem háseti á varðskipinu Tý.

Ómögulegt að finna sambærilegt starf

Í vörn sinni sagði maðurinn að fyrrnefnd atvik væru byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum og meint brot væru ósönnuð. Uppsögnin hefði haft mikil áhrif á líf hans enda hafði hann starfað hjá Landhelgisgæslunni frá 18 ára aldri.

„Stefnandi lét af störfum strax eftir uppsögnina 28. febrúar 2019, eftir að hafa starfað hjá Landhelgisgæslunni frá 18 ára aldri. Öll hans starfsreynsla hafi tengst hásetastarfi hans hjá Landhelgisgæslunni og hann hafi engin áform haft um annað en að halda því starfi áfram um ókominn tíma. Brottvikning úr starfi hafi orðið stefnanda til verulegs álitshnekkis og gert honum ómögulegt að sækjast eftir sambærilegu starfi annars staðar. Uppsögnin komi sérstaklega illa við hann þar sem hann hafi hvorki menntun, þekkingu né haldbæra reynslu af öðrum störfum,“ segir í greinargerðinni.

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Fréttablaðið/Ernir