Í ársskýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um sjóatvik kemur fram að skráð atvik fyrir árið 2020 voru alls 93, sem er lækkun frá fyrri árum. Flest skráð atvik eru á norðvestursvæði, eða 40. Það svæði nær frá Snæfellsnesi að Siglufirði. Næstflest voru á suðvestursvæði, eða 23, sem er svæðið frá Dyrhólaey að Snæfellsnesi.

Engin banaslys urðu á íslenskum sjómönnum við strendur landsins á árinu 2020, sem er sjöunda árið sem það gerist og fjórða í röð. Skráð slys á fólki á árinu 2020 voru 58, engin slys voru skráð hjá nefndinni á fiskibátum undir 20 brúttótonnum.

Samkvæmt samantekt voru algengustu slysin að klemmast eða verða á milli, 17 talsins. Önnur algeng slys voru fallslys af ýmsum toga, slys við vindur ásamt ytri áverkum. Meðalaldur slasaðra var 43 ár en þeir sem voru yngstir til að slasast voru tveir 20 ára hásetar á togveiðiskipum. Sá elsti sem slasaðist var 66 ára matsveinn á dýpkunarskipi.

Eins og fyrri ár eru það undirmenn á skipum sem slasast í miklum meirihluta, eða 79 prósent. Flest slysin koma fyrir háseta, eða 36, sem eru 62 prósent af öllum slysum. Aðrir undirmenn sem slasast mest eru netamenn og matsveinar.

Sjö skip sukku á árinu, fimm vegna snjóflóðs á Flateyri, eitt langleguskip í Hafnarfirði og eitt togveiðiskip við bryggju á Stöðvarfirði. Fjórar ásiglingar voru skráðar á árinu, þrjár gerðust í höfn og ein á ytri höfninni í Reykjavík, en þar varð slys á farþega á skemmtibát.