Harðar umræður urðu um fjármál borgarinnar og hallarekstur á fundi borgarstjórnar í gær. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skellir skuldinni alfarið á ríkið í umræðu um stórfelldan hallarekstur Reykjavíkurborgar. Sjálfstæðismenn hafa lagt fram tillögur um sjö milljarða króna sparnað.

Sjálfstæðismenn saka meirihlutann um máttlausar hagræðingartillögur, enda skili þær aðeins einum milljarði í hagræðingu.

„Það er dropi í hafið. Áherslur meirihlutans virðast einkennast af magni umfram gæði,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í tillögum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er lagt til að draga úr rekstrargjöldum um sem nemur 5,2 milljörðum króna með því að minnka yfirbyggingu. Þar vegur þyngst tillaga um að skera niður launakostnað um 5 prósent, en þess verði gætt að hlífa framlínustarfsfólki. Samhliða er lagt til að hagræða í miðlægri stjórnsýslu og fækka borgarfulltrúum.

Jafnframt er lögð til frestun eða lækkun á fjárfestingum um 1.850 milljónir króna árið 2023 og 4.850 milljónum næstu fimm árin. Einnig leggja Sjálfstæðismenn fram tillögur um tekjuaukandi aðgerðir, svo sem frekari sölu lóða undir íbúðar- og atvinnuhúsnæði í borginni.

Lóðasala myndi skapa borginni auknar tekjur, en jafnframt leiða af sér fjölgun íbúa og fyrirtækja í kjölfarið.

„Hins vegar leggjum við að venju til sölu á Ljósleiðaranum og öðrum eignum sem ekki snúa að lögbundnu grunnþjónustuhlutverki Reykjavíkurborgar. Aðgerðirnar geta skilað borginni tugum milljarða sem verja má til lækkunar á skuldum og fjármagnskostnaði ásamt því að fjárfesta í innviðum,“ segir Hildur.

Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna.
Fréttablaðið/Eyþór

Fréttablaðið spurði Dag B. Eggertsson borgarstjóra hvort það væri ekki ígildi falleinkunnar hjá meirihlutanum að hafa tapað nálægt milljarði króna á mánuði undanfarið í A-hluta rekstrarins.

Dagur segir að langstærsta ástæða hallarekstrarins sé sú að ríkið standi ekki við skuldbindingar. Því verði borgin að bregðast við með hagræðingu.

„Stærsta talan er málaflokkur fatlaðra, gatið sem ríkið hefur skilið eftir með auknum lagaskyldum fyrir sveitarfélögin án þess að fjármagn fylgi,“ segir Dagur.

Mótmæli fóru fram í Ráðhúsinu í gær vegna fyrirætlana um skerta þjónustu fyrir börn í Siglunesi. Spurður hvort byrjað sé á öfugum enda segir Dagur að velta þurfi við hverjum steini. „Við gerum það þannig að bitni ekki á grunnþjónustunni.“

Um tillögur Sjálfstæðismanna sem vilja fækka starfsfólki borgarinnar segir Dagur:

„Tillögur Sjálfstæðisflokksins eru sýndarmennska, því þar er látið að því liggja að hægt sé að fækka starfsfólki um fimm prósent án þess að það bitni á grunnþjónustunni. Það er algjört óraunsæi,“ segir Dagur.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, segir að sér hugnist ekki sú hugmynd Sjálfstæðismanna að fækka borgarfulltrúum. Nær væri að lækka laun þeirra.