Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að engar formlegar viðræður hefðu átt sér stað á milli Íslands og Atlantshafsbandalagsins, NATO, um framkvæmdir í Helguvík. Þær væru enn aðeins hugmynd utanríkisráðherra. Þar að auki ætti ekki að blanda saman utanríkispólitík og efnahagsaðgerðum á þeim tíma þegar Íslendingar standa höllum fæti.

Katrín varð fyrir mikilli orrahríð frá formönnum Viðreisnar og Miðflokksins, þeim Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, vegna frétta um að Vinstri græn hefðu hindrað uppbygginguna. En hún er sögð vera um 12 til 18 milljarða króna virði, með litlum tilkostnaði fyrir Íslendinga sjálfa.

Sakaði Sigmundur VG um að láta innanflokksviðhorf til NATO ráða og fórna þar með hundruðum starfa á Reykjanesi. Þorgerður Katrín spurði hvort þetta hefði verið tekið upp í Þjóðaröryggisráði, og ef ekki, væri verið að vega að vestrænu varnarsamstarfi.

Katrín stóð á sínu og sagði áhættumat í undirbúningi fyrir Ísland, sem yrði tilbúið í haust.

„Við þurfum að vanda okkur þegar um er að ræða jafn mikilvæg mál og þjóðaröryggi Íslendinga,“ sagði hún.