Rétt notkun orðins „maður“ er umdeilt fyrirbrigði í íslensku nútímamáli. Hart er deilt á samfélagsmiðlum um ágæti þess að nota orðið maður og önnur orð í málfræðilegu karlkyni til að vísa til fólks og starfsheita óháð kyni. Mörgum kann að vera eðlislægt að nota orðið maður í hinum ýmsu merkingum en æ algengara er orðið að bent sé á víðari notkun þess en vísanir til karlmanna sem tímaskekkju.

„Orðið maður hefur á öllum tímum í íslenskri málsögu verið notað til að vísa til fólks óháð kyni,“ segir Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslensku við Háskóla Íslands. „Afstaðan til svona orða hefur verið misjöfn á síðustu árum. Þegar Kvennalistinn kom fram sem stjórnmálaflokkur vildu frambjóðendur hans láta kalla sig þingkonur. Þetta var bylgja þar sem sumar konur óskuðu þess að nota starfsheiti sem enduðu á -kona eða -stýra til að vera ekki -maður eða -stjóri en þetta sló ekki almennilega í gegn.

Það væri algerlega rangt að gefa út íslenska orðabók þar sem orð sem enda á -maður væru eingöngu sögð vísa til karla. Það væri einfaldlega ekki í samræmi við íslensku og þar væru lesandanum gefnar rangar upplýsingar.“ Guðrún telur ekki þörf fyrir uppstokkun á íslenskunni í viðleitni til að gera hana kynhlutlausari. Hún segir þó að slíkar hugmyndir séu ekki nýjar. Til að mynda hafi kvennaguðfræðingar óskað eftir breytingum á notkun orðsins „maður“ í nýrri þýðingu Biblíunnar sem kom út árið 2007.

Guðrún segir viðleitnina til að draga úr orðnotkun af þessu tagi eiga sér samsvörun í öðrum tungumálum.

„Sem jafnréttisbaráttuhugmyndir eru þær fengnar að láni frá tungumálum sem hafa ekki sama málfræðilega kynjakerfi og íslenska. Enskumælandi konur fyrir 50 árum höfðu mun ríkari ástæðu til að kvarta yfir notkun orðsins „man“ en íslenskar konur vegna þess að hérlendis var orðið „maður“ ekki bara notað um karlmenn heldur um fólk óháð kyni í ýmsu samhengi. Á íslensku tölum við til dæmis um mannréttindi en á ensku er talað um „human rights“ en ekki „man rights“. Íslenska er bara öðruvísi gerð.“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í málfræði við HÍ, segir þetta flókið álitaefni. „Það er ljóst að orðið „maður“ hefur fleiri en eina merkingu. Fyrst tegundina Homo sapiens og svo karlmaður. En það breytir því ekki að í huga margra tengist þetta miklu meira karlmönnum, enda er orðið mjög oft notað þannig og talað er um menn og konur. Í Íslendingasögunum er til dæmis aldrei kynnt kona til sögunnar með orðunum „maður er nefndur“. Það leiðir til þess að mörgum konum og kynsegin fólki finnst ekki höfðað til sín með orðinu.“

Eiríkur telur óheppilegt að orð sem eigi að vísa til allra höfði ekki til hluta fólks. „Þetta snýst um tilfinningu fólks fyrir orðinu. Ég hef fyrst og fremst reynt að tala fyrir umburðarlyndi og að fólk sýni því skilning að margir tengja ekki við þetta orð.“

Hvorki Guðrún né Eiríkur treysta sér til að spá fyrir um hvort málþróun verði sú að orðið maður falli úr notkun í kynhlutlausri merkingu sinni. Eiríkur segir að samfélagið muni skera úr um það en bendir á að andstaða við víðtækari merkingu orðsins fari vaxandi og sé algengari meðal yngra fólks en eldra.