Harry Breta­prins og eigin­kona hans Meg­han Mark­le ætla að láta af opin­berum störfum sínum fyrir bresku konungs­fjöl­skylduna. Þau segjast ætla að vinna að því að ná fjár­hags­legu sjálf­stæði og verða óháð konungs­fjöl­skyldunni.


Þetta til­kynntu hjónin breskum fjöl­miðlum rétt í þessu. Hjónin segjast hafa hug­leitt málið í marga mánuði og komist að því að þetta sé best fyrir þau og fjöl­skyldur þeirra. Þau munu á­fram styðja drottninguna en hætta að sinna opin­berum em­bættis­skyldum.


Þau segjast þá ætla að gefa for­dæmi og skapa nýtt hlut­verk innan konungs­fjöl­skyldunnar. Þau ætla að skiptast á að eyða tíma sínum í heima­landi Meg­han, Banda­ríkjunum og í Bret­landi. „Það mun gefa okkur færi á að ala son okkar upp með virðingu fyrir þeim konung­legu hefðum sem hann til­heyrir og einnig gefa okkur rými til að ein­beita okkur betur að okkur sjálfum og komandi verk­efnum,“ segir í til­kynningu þeirra.

Undan­farna mánuði hafa hjónin opnað sig um erfið­leika sína í sam­skiptum við bresku götu­blöðin. Meg­han stefndi fjöl­miðlinum Mail on Sunday í októ­ber síðast­liðnum fyrir að birta hand­skrifað bréf hennar til föður síns. Harry hefur einnig hótað að fara í mál við eig­endur Daily Mirror og The Sun vegna gruns um að brotist hafi verið inn í síma hans.

Hjónin eru ný­­mætt aftur til Bret­lands en þau hafa eytt síðustu mánuðum í Kanada, þar sem þau eru sögð hafa notið sín vel. Í dag var greint frá því að þau í­huguðu að flytja þangað en ef marka má til­kynningu þeirra í dag hyggjast þau búa til skiptis í Banda­ríkjunum og á Bret­landi.

Harry og Meghan birtu tilkynninguna einnig í færslu á Instagram rétt í þessu sem má sjá hér fyrir neðan.

Frétt BBC um málið.