Harry prins og Meghan hertogaynja ætla ekki að hætta að vinna með efnisveitunni Spotify þrátt fyrir birtingu misvísandi upplýsinga um Covid-19 á vettvangi hennar. Þau hafa haft samband við Spotify til að lýsa yfir áhyggjum af dreifingu falsfrétta á miðlinum en að sögn upplýsingafulltrúa þeirra hyggjast þau enn starfa með fyrirtækinu.

Tónlistarfólkið Neil Young og Joni Mitchell sleit nýverið samstarfi sínu við Spotify og lét fjarlægja tónlist sína af efnisveitunni vegna ósættis um að rangfærslur um Covid-19 væru látnar óátaldar í vinsælum hlaðvarpsþáttum grínistans Joe Rogan, sem birtir eru á Spotify. Fyrr í mánuðinum höfðu 270 vísindamenn og læknar undirritað bréf þar sem biðlað var til Spotify að koma í veg fyrir að Rogan dreifði rangfærslum um veikina í þáttunum.

Harry og Meghan gerðu samninga um að framleiða og kynna hlaðvarpsþætti fyrir Spotify árið 2020. Er það liður í viðleitni þeirra til að afla sér lífsviðurværis án hjálpar bresku konungsfjölskyldunnar, sem þau hafa að mestu slitið samskiptum við. „Við höfum haldið áfram að greina Spotify frá áhyggjum okkar til að tryggja að breytingar verði gerðar á vettvangi þess til að takast á við þessa heilbrigðiskreppu,“ sagði upplýsingafulltrúinn. „Við treystum á Spotify að takast á við þá áskorun og erum staðráðin í að halda áfram samstarfi okkar á meðan það er gert.“