Fréttir

Hárreitt, barin og rænd á American Bar

Tvær konur gengu harkalega í skrokk á Birnu Dögg Jónasdóttur á American Bar um helgina. Þær höfðu af henni veski, nýjan farsíma og öll greiðslukort og skilríki og skildu við hana lemstraða og hárreitta. Hún telur víst að verr hafði farið ef maður hefði ekki komið að og stöðvað barsmíðarnar.

Birna Dögg saknar veskis og snjallsíma eftir líkamsárás á salerni American Bar.

Birna Dögg Jónasdóttir, einstæð tveggja barna móðir og námsmaður, varð fyrir ruddalegri árás á kvennasalerninu á American Bar á föstudagskvöld. „Það var bara gengið í skrokk á mér,“ segir Birna Dögg í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta voru tvær stelpur. Önnur rífur í hárið á mér, dregur mig niður og heldur mér niðri á hárinu á meðan hin krambúlerar mig þarna inni á klósetti.“

Birna Dögg var með tvö veski á handleggnum, annað sem systir hennar á og síðan hennar eigið, svart veski merkt MK. Árásarkonurnar náðu því veski af henni og um leið öllum greiðslukortum, ökuskírteini og því sem svíður sárast, glænýjum Samsung s8+ snjallsíma.

Birna Dögg biður fólk á Brask og brall um að hafa augun opin fyrir ránsfengnum.

Birna Dögg veit engin deili á konunum og telur víst að eini tilgangur árásarinnar hafi verið að ræna hana. „Ég hef aldrei séð þessar stelpur áður og ekki gert þeim neitt. Ég skil bara ekki í því hvers vegna ég lenti í þessu og var allt í einu orðin að fórnarlambi þarna á klósettinu.“

Birna Dögg segir árásina hafa verið ofsafengna. „Þetta var bara heift. Það er náttúrlega heift að halda konu niðri á hárinu, gefa henni hnéspark í andlitið og berja hana í döðlur,“ segir Birna Dögg.

 „Nokkrir hárlokkar fuku. Ég var bara hárreytt til þess að halda mér niðri til þess að hin stelpan gæti barið mig. Ég er tognuð á hálsi, marin og blá, með skallabletti og kúlu á höfðinu eftir hnésparkið.

Þessi sem barði mig náði svo að rífa töskuna af mér. Ef það hefði ekki strákur komið og stöðvað þetta held ég að þær hefðu bara gengið frá mér þarna inni. Slíkur var ofsinn.“

Birna Dögg segist hafa reynt að flýja undan stelpunum með því að hlaupa inn á karlaklósettið. „Og þar halda þær barsmíðunum áfram þangað til þessi strákur kemur.“

Sárt að missa símann

Birna Dögg sér sérstaklega eftir Samsung-símanum enda ekki búin að eiga hann í viku. „Þetta er glænýr sími sem frændi minn gaf mér,“ segir hún og bætir við að tjónið er bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt.

„Ég er einstæð móðir með tvö börn og þetta er bara ömurlegt. Svona sími er eitthvað sem ég hef ekki efni á sjálf og þetta var gjöf frá frænda mínum. Ég á ekki neitt.“

Ekki hefur verið kveikt á símanum frá því hann hvarf með handtösku Birnu Daggar og hún hefur því ekki getað rakið hann. „Það er í raun ekki hægt að stela símum, þannig séð, í dag nema það eigi að senda þá úr landi. Þess vegna finnst mér sárt að símanum mínum sé ekki skilað.  

Ég missti líka öll kortin mín, ökuskírteinið mitt og bara allt. Það var allt í kortaveskinu með símanum. Ég fór á læknavaktina til að fá áverkavottorð og var beðin um skilríki sem ég gat ekki auðvitað ekki framvísað því það var öllu stolið af mér.“

Birna Dögg komst í mikið uppnám við árásina og leitaði ekki til lögreglu fyrr en daginn eftir. „Ég fór bara í sjokk yfir að síminn  minn væri horfinn og var bara þarna ráfandi um American Bar grátandi í örugglega tvo tíma. Fór svo heim og hafði samband við lögregluna daginn eftir.“ Hún segir lögregluna þó ekki munu skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum fyrr en á fimmtudaginn, eftir að hún hefur lagt fram kæru ásamt lögmanni sínum.

Birna Dögg auglýsti eftir töskunni sinni og símanum á Facebook-síðunni Brask og brall um helgina og bað fólk um að hafa augun opin. Þar hafa henni borist ábendingar um handtösku og síma sem eru boðin til sölu á síðunni en ekki er þó um eigur hennar að ræða.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Tekinn aftur á ríflega 130 á Reykjanesbraut

Innlent

Lög­reglan leitaði að „Stúfi“ í Bú­staða­hverfi

Erlent

Segja asbest í barnapúðri Johnson & Johnson

Auglýsing

Nýjast

Tekinn á 132 með vélsleðakerru í eftirdragi

Kældi brennandi bíl með snjó

Glæ­ný Boeing-þota nauð­lendir í Íran

Braust inn í bíl en eigandinn sat undir stýri

Ölvaður maður bjálaðist í vegabréfaskoðun

Ísland er dýrasta land í Evrópu

Auglýsing