Leiðandi menningar­stofnanir í þremur löndum, Ís­landi, Finn­landi og Eist­landi, hafa á­kveðið að taka höndum saman og lýsa fjögur við­burða-, ráð­stefnu- og menningar­hús í lit vonarinnar, grænum. Í til­kynningu frá Hörpu kemur fram að það sé gert í virðingar­skyni við þá sem berjast við CO­VID-19 kóróna­veiruna.

Menningar­stofnanirnar verða lýstar upp í grænum lit á hverju kvöldi frá 9. apríl þar til fram yfir páska. Stofnanirnar vilja undir­strika mikil­vægi al­þjóð­legrar sam­vinnu, jafn­vel þótt verald­legum landa­mærum hafi verið lokað.

Tampere Hall í Finnlandi er meðal þeirra húsa sem taka þátt í átakinu.

Fyrir alla sem upp­lifa erfiða tíma


„Þessi her­ferð er lögð upp með það að mark­miði að styðja við þá sem upp­lifa erfiða tíma núna; heil­brigðis­starfs­fólk, sjálf­boða­liða, for­eldra, fólk sem er ein­manna eða veikt, aldraða og fólk í sótt­kví, lista­menn og alla aðra sem upp­lifa nú að lífs­viður­væri þeirra sé ógnað,“ segir Svan­hildur Kon­ráðs­dóttir, for­stjóri Hörpu um á­takið.


,,Þau okkar sem starfa við menningu og listir finnum til mikillar á­byrgðar gagn­vart því að halda á­fram að miðla já­kvæðni, von­gleði og fegurð og í til­felli Hörpu, dá­sam­legri tón­list.“ Skapandi greinar hafi aldrei verið mikil­vægari.
„Sér­stak­lega á þessum tímum þegar ógnun á heims­vísu snertir alla jarðar­búa. En þetta á­stand mun taka enda og þá munum við safnast aftur saman í menningar­húsunum okkar til að fagna mennskunni og því að hafa risið upp úr þessu með því að standa saman.”

Eistneska Óperan og Ballettinn vonast til að blása von í hjörtu fólks.