Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir í svari um skipun þjóðminjavarðar að ákveðið hafi verið að skipa Hörpu Þórisdóttur eftir að nafn hennar kom upp í samræðum innan ráðuneytisins um hver myndi henta í embættið. Það gerðist eftir að unnið hafði verið að því um einhvern tíma að hanna auglýsingu innan ráðuneytisins.
Svarið var birt á vef Alþingis í gær en Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar spurði þar um ýmislegt er tengist skipuninni.
Í svarinu er vel farið yfir þær heimildir sem eru í lögum fyrir slíkum flutningi og einnig farið yfir aðdraganda málsins, stöðu safnsins sem eins höfuðsafns Íslands og hversu veigamikill stjórnendaþáttur þjóðminjavarðar var orðinn.
Sækjast eftir ákveðnum starfskröftum
Hvað varðar heimild til flutnings segir að samkvæmt lögum hafi heimildin almennt verið talin gefa starfsfólki hins opinbera tækifæri á að færast til í starfi án þess að þurfa að sækja formlega öðru sinni um embætti.
„Í mörgum tilvikum er undirliggjandi ástæða flutnings einnig sú að hlutaðeigandi stjórnvald sækist eftir starfskröftum þess einstaklings sem fluttur er til í starfi. Aðrar ástæður kunna einnig að liggja að baki flutningi í starfi, t.d. tilfærsla embættismanna á milli samkynja eða svipaðra starfa,“ segir í svarinu og að í menningar- og viðskiptaráðuneytinu hafi almennt verið sá háttur að auglýsa störf og embætti en að á því séu tvær undantekningar og báðar tengist því að það eigi að fá ákveðinn einstakling í starfið eða embættið.
„Í tilfelli skipunar í embætti þjóðminjavarðar, sem fyrirspurnin beinist að, var þannig horft sérstaklega til þess einstaklings sem átti í hlut, þ.e. fyrrverandi safnstjóra Listasafns Íslands, og þeirrar þekkingar og reynslu sem viðkomandi býr yfir. Við þá ákvörðun að víkja frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 var horft til þess hvernig stjórnun og þróun Þjóðminjasafns Íslands yrði háttað á næstu fimm árum. Fór fram af því tilefni ákveðin athugun og rannsókn, sem lá að baki ákvörðun ráðherra.“
Tveir embættismenn skrifuðu drög
Spurt var hvers konar rannsókn fór fram við undirbúning ákvörðunarinnar og kemur þar fram að þegar ljóst var í apríl á þessu ári að þáverandi þjóðminjavörður hafði verið skipuð í annað embætti var fjármálastjórinn tímabundinn skipaður og hafist handa við að gera auglýsingu til að auglýsa embættið. Til að gera það var embættið sjálft rannsakað og hvaða kosti sá einstaklingur þyrfti að bera til að sinna embættinu. Þá var einnig ákveðið að horfa sérstaklega til þeirra „starfandi forstöðumanna hins opinbera og þá sérstaklega á sviði menningar og safna“ og að fljótlega hafi þeim orðið ljóst að einn aðili í þeim hópi uppfyllti að mati ráðuneytisins allar kröfur til embættisins.
Þá var einnig spurt hvort ráðherra hafi leitað álits og hvernig ákvörðunin samrýmist bæði grundvallarreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þar kemur fram að tveir embættismenn ráðuneytisins hafi sent drög að auglýsingu á milli sín og að þegar drögin hafi orðið til hafi þau rætt á milli sín hvort Harpa hentaði í embættið.
„Niðurstaðan úr þeirri athugun var að Listasafn Íslands þótti standa framarlega með framsækna og fjölbreytta starfsemi á undanförnum árum. Í því samhengi var einnig ljóst að frammistaða safnstjóra Listasafns Íslands, hæfni viðkomandi, reynsla og þekking var eftirtektarverð og að starfið í safninu bæri með sér að þar færi kröftugur safnstjóri og leiðtogi. Aðrir eiginleikar viðkomandi, svo sem hæfni í mannlegum samskiptum, stjórnunarreynsla og lausnamiðuð nálgun, gerðu það enn fremur að verkum að safnstjórinn þótti vel hæfur til þess að taka við embætti þjóðminjavarðar,“ segir í svarinu og að kannaður hafi í kjölfarið verið áhugi Hörpu á að vera flutt í starfi.
Hún hafi samþykkt það og var svo skipuð 25. ágúst.