Lilja D. Al­freðs­dóttir menningar- og við­skipta­ráð­herra segir í svari um skipun þjóð­minja­varðar að á­kveðið hafi verið að skipa Hörpu Þóris­dóttur eftir að nafn hennar kom upp í sam­ræðum innan ráðu­neytisins um hver myndi henta í em­bættið. Það gerðist eftir að unnið hafði verið að því um ein­hvern tíma að hanna aug­lýsingu innan ráðu­neytisins.

Svarið var birt á vef Al­þingis í gær en Jóhann Páll Jóhanns­son þing­maður Sam­fylkingarinnar spurði þar um ýmis­legt er tengist skipuninni.

Í svarinu er vel farið yfir þær heimildir sem eru í lögum fyrir slíkum flutningi og einnig farið yfir að­draganda málsins, stöðu safnsins sem eins höfuð­safns Ís­lands og hversu veiga­mikill stjórn­enda­þáttur þjóð­minja­varðar var orðinn.

Sækjast eftir ákveðnum starfskröftum

Hvað varðar heimild til flutnings segir að sam­kvæmt lögum hafi heimildin al­mennt verið talin gefa starfs­fólki hins opin­bera tæki­færi á að færast til í starfi án þess að þurfa að sækja form­lega öðru sinni um em­bætti.

„Í mörgum til­vikum er undir­liggjandi á­stæða flutnings einnig sú að hlutað­eig­andi stjórn­vald sækist eftir starfs­kröftum þess ein­stak­lings sem fluttur er til í starfi. Aðrar á­stæður kunna einnig að liggja að baki flutningi í starfi, t.d. til­færsla em­bættis­manna á milli sam­kynja eða svipaðra starfa,“ segir í svarinu og að í menningar- og við­skipta­ráðu­neytinu hafi al­mennt verið sá háttur að aug­lýsa störf og em­bætti en að á því séu tvær undan­tekningar og báðar tengist því að það eigi að fá á­kveðinn ein­stak­ling í starfið eða em­bættið.

„Í til­felli skipunar í em­bætti þjóð­minja­varðar, sem fyrir­spurnin beinist að, var þannig horft sér­stak­lega til þess ein­stak­lings sem átti í hlut, þ.e. fyrr­verandi safn­stjóra Lista­safns Ís­lands, og þeirrar þekkingar og reynslu sem við­komandi býr yfir. Við þá á­kvörðun að víkja frá megin­reglu 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 var horft til þess hvernig stjórnun og þróun Þjóð­minja­safns Ís­lands yrði háttað á næstu fimm árum. Fór fram af því til­efni á­kveðin at­hugun og rann­sókn, sem lá að baki á­kvörðun ráð­herra.“

Tveir embættismenn skrifuðu drög

Spurt var hvers konar rann­sókn fór fram við undir­búning á­kvörðunarinnar og kemur þar fram að þegar ljóst var í apríl á þessu ári að þá­verandi þjóð­minja­vörður hafði verið skipuð í annað em­bætti var fjár­mála­stjórinn tíma­bundinn skipaður og hafist handa við að gera aug­lýsingu til að aug­lýsa em­bættið. Til að gera það var em­bættið sjálft rann­sakað og hvaða kosti sá ein­stak­lingur þyrfti að bera til að sinna em­bættinu. Þá var einnig á­kveðið að horfa sér­stak­lega til þeirra „starfandi for­stöðu­manna hins opin­bera og þá sér­stak­lega á sviði menningar og safna“ og að fljót­lega hafi þeim orðið ljóst að einn aðili í þeim hópi upp­fyllti að mati ráðu­neytisins allar kröfur til em­bættisins.

Þá var einnig spurt hvort ráð­herra hafi leitað á­lits og hvernig á­kvörðunin sam­rýmist bæði grund­vallar­reglu og rétt­mætis­reglu stjórn­sýslu­réttar. Þar kemur fram að tveir em­bættis­menn ráðu­neytisins hafi sent drög að aug­lýsingu á milli sín og að þegar drögin hafi orðið til hafi þau rætt á milli sín hvort Harpa hentaði í em­bættið.

„Niður­staðan úr þeirri at­hugun var að Lista­safn Ís­lands þótti standa framar­lega með fram­sækna og fjöl­breytta starf­semi á undan­förnum árum. Í því sam­hengi var einnig ljóst að frammi­staða safn­stjóra Lista­safns Ís­lands, hæfni við­komandi, reynsla og þekking var eftir­tektar­verð og að starfið í safninu bæri með sér að þar færi kröftugur safn­stjóri og leið­togi. Aðrir eigin­leikar við­komandi, svo sem hæfni í mann­legum sam­skiptum, stjórnunar­reynsla og lausna­miðuð nálgun, gerðu það enn fremur að verkum að safn­stjórinn þótti vel hæfur til þess að taka við em­bætti þjóð­minja­varðar,“ segir í svarinu og að kannaður hafi í kjöl­farið verið á­hugi Hörpu á að vera flutt í starfi.

Hún hafi sam­þykkt það og var svo skipuð 25. ágúst.

Svarið er ítar­legra og er hægt að lesa hér.