Guðmundur Freyr Magnússon er sakaður um að hafa brotið upp dyr á heimili móður sinnar á Spáni á þriðja tímanum aðfaranótt sunnudags að staðartíma. Maðurinn sem lést er Íslendingur á sjötugsaldri. Fólkið hefur verið búsett á Spáni um nokkurt skeið.

Móðir Guðmundar segir í samtali við Fréttablaðið að sorginni og áfallinu verði ekki lýst í orðum, að hennar eigin sonur hafi orðið ástríkum sambýlismanni hennar að bana.

Guðmundur er sagður hafa brotið sér leið inn á heimili móður sinnar og ráðist á sambýlismann hennar. Í spænskum miðlum segir að Guðmundur hafi ýtt manninum á glugga og við það hafi maðurinn skorist illa og það orðið honum að bana. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Guðmundur hafa brotið rúðu í húsinu með gaskút og í kjölfarið ýtt manninum í gólfið og lagt til hans með eggvopni. Glerbrot voru á víð og dreif um íbúðina og skarst húsráðandi á þeim þegar hann reyndi að verjast Guðmundi.

Guðmundur er sakaður um að hafa ráðist áður á manninn. Þá þurfti maðurinn að leggjast inn á spítala þungt haldinn eftir höfuðhögg. Guðmundur var úrskurðaður í nálgunarbann í kjölfarið. Guðmundur á sakaferil að baki. Árið 2007 var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi vegna íkveikju. Þá var Guðmundur á síðasta ári dæmdur í fangelsi og var stutt í að hann ætti að hefja afplánun.

„Mér líður hræðilega og sorgin hefur heltekið mig og áfallið er mikið,“ segir móðir Guðmundar í samtali við Fréttablaðið. Hún treysti sér ekki til að tjá sig um harmleikinn sem átti sér stað á heimili hennar, þegar sonur hennar varð sambýlismanni hennar að bana.

Hún kveðst fá aðstoð frá vinkonu sem sitji yfir henni og þá eru sálfræðingar til taks til að aðstoða hana að takast á við áfallið. Segir hún að framundan sé langt og strangt bataferli og mikilvægt að eiga góða að. Hún segist ekki geta lýst í orðum þeirri sorg sem helltist yfir hana við það að missa sambýlismann sinn með þessum hætti.

„Ég finn líka til mikillar samúðar með börnum hans,“ segir konan og ítrekaði að hún vildi ekki tjá sig frekar um málavöxtu vegna rannsóknarhagsmuna og af virðingu við ættingja og börn mannsins. Hún bætti við að nú þyrfti hún að einbeita sér að því að vinna í áfallinu og hún væri mjög langt niðri. Þá ítrekaði hún að hún fyndi mikið til með börnum sambýlismannsins. Hann átti tvö börn sem búsett eru á Íslandi.

„Hann átti líka barnabörn sem ég finn afskaplega mikið til með sem og systkinum hans. Sorgin er óbærileg,“ segir konan.