Eins og hálfs árs drengur fannst látinn í Chesterfi­eld-sýslu í Virginíu­ríki í Banda­ríkjunum í gær en talið er að hann hafi dáið eftir að hafa gleymst í sjóðandi heitum bíl í nokkrar klukku­stundir. Faðir hans fannst einnig látinn skömmu síðar.

Í frétt WTVR kemur fram að flest bendi til þess að faðir drengsins hafi gleymt að skutla drengnum í pössun. Hann áttaði sig á því um þremur klukku­stundum síðar en kom þá að drengnum látnum í bílnum.

Maðurinn hafði sam­band við fjöl­skyldu sína í miklu upp­námi og lýsti því sem hafði gerst. Þegar lög­regla kom að heimili fjöl­skyldunnar fannst drengurinn látinn innan­dyra og faðirinn látinn á bak við húsið. Lög­regla telur að hann hafi svipt sig lífi.

Hiti á svæðinu fór upp í hátt í 30 gráður í gær en slys af þessu tagi hafa verið nokkuð tíð í Banda­ríkjunum að undan­förnu.

Í gær var greint frá máli þriggja ára drengs sem lést í Georgíu­ríki eftir að hafa gleymst í bíl fjöl­skyldu sinnar í þrjár klukku­stundir. Rúm vika er síðan liðin síðan fimm ára drengur lést í bif­reið fjöl­skyldu sinnar í Texas.