Óskar Reyk­dals­son, for­stjóri Heilsu­gæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu, og Páll Mattías­son, for­stjóri Land­spítala, segjast harma þá ó­vissu sem myndaðist við yfir­færslu krabba­meins­skimana en að því er kemur fram í til­kynningu um málið var yfir­færslan ekki eins hnökra­laus og menn höfðu vonað með þeim af­leiðingum að málið skapaði á­hyggjur og öryggi í sam­fé­laginu.

„Í ljósi um­ræðu síðustu daga um þetta nýja fyrir­komu­lag vilja Heilsu­gæslan og Land­spítali taka fram að að­stand­endum verk­efnisins þykir mjög miður að ó­vissa hafi skapast um þessa mikil­vægu þjónustu. Við slíkt verður ekki búið og keppast nú allir aðilar verk­efnisins við að bæta þar úr með fjöl­breyttum hætti,“ segir í til­kynningu frá Heilsu­gæslunni og Land­spítala.

Vandasöm og viðkvæm yfirfærsla

Breytingarnar sem um ræðir snúa að skipu­lagi, fram­kvæmd og stjórn skimunar fyrir krabba­meini en Heilsu­gæslan, Land­spítali og Sjúkra­húsið á Akur­eyri tóku við skimunum af Krabba­meins­fé­lagi Ís­lands um ára­mótin. Spítalarnir tóku við skimun fyrir krabba­meini í brjóstum en Heilsu­gæslan tók við skimunum fyrir krabba­meini í leg­hálsi.

Í janúar kom síðan í ljós að um tvö þúsund leg­háls­sýni hafi legið ó­greind í pappa­kassa eftir að Krabba­meins­fé­lag Ís­lands hætti að sinna skimunum í nóvember. Á­stæðan var þá þar sem samningar höfðu ekki náðst við danska rann­sóknar­stofu sem átti að sjá um greiningu sýnanna.

Að því er kemur fram í til­kynningunni er um að ræða vanda­sama og við­kvæma yfir­færslu verk­efna.

Endurbætur gerðar

Unnið er að því að auka net­spjall við skjól­stæðinga í gegnum Heilsu­vera.is vegna skimanna og mun Land­spítali leggja Heilsu­gæslunni lið ef það þarf til. Mark­miðið er að svara sér­tækum spurningum hvers og eins og út­rýma ó­vissu sjúk­linga.

„Verk­lagið er sam­kvæmt því sem mælt er með í al­þjóð­legum skimunar­leið­beiningum til að tryggja frekar öryggi og gæði þjónustunnar og er jafn­framt í sam­ræmi við fram­tíðar­sýn og megin­mark­mið heil­brigðis­stefnu til ársins 2030. Em­bætti land­læknis fer með stjórn hóp­leitarinnar og ber á­byrgð á henni, sinnir gæða­eftir­liti og heldur skimunar­skrá.“

Þá hefur einnig verið sett á fót Sam­hæfingar­stöð krabba­meins­skimana sem hefur það verk­efni að boða fólk í skimun og veita upp­lýsingar en stöðin heyrir undir Heilsu­gæsluna. Þar að auki verður opnuð öflug brjósta­mið­stöð Land­spítala á Ei­ríks­stöðum innan skamms.