Mike Pompeo, utan­ríkis­ráð­herra í ríkis­stjórn Donalds Trump Banda­ríkja­for­seta, er væntan­legur hingað til lands síðar í dag. Heim­sóknin er liður í Evrópureisu ráð­herrans en hann hefur í vikunni ferðast til Ung­verja­lands, Slóvakíu, Pól­lands og Belgíu. 

Ferðinni lýkur síðan hér á landi þar sem Pompeo hefur mælt sér mót við Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra og Guð­laug Þór Þórðar­son utan­ríkis­ráð­herra. Heim­sókn ráð­herrans er stutt en hann mun einungis doka hér við í fá­einar klukku­stundir. 

Ferill Pompeo er langur og hefur hann komið víða við. Það er ef til vill við hæfi að fara yfir það helsta í lífi ráð­herrans sem nú er á leiðinni til landsins. 

Höfuðsmaður heldur til Harvard

Michael Richard Pompeo er fæddur 30. desember árið 1963 í Orange, Kali­forníu. Hann er sonur Wa­yne og Dor­ot­hy Pompeo og ólst upp í Santa Ana í Kali­forníu. Ungur að árum skráði hann sig í herinn en hann nam í West Point í New York. Pompeo út­skrifaðist með hæstu ein­kunn í sínum bekk í véla­verk­fræði árið 1986 og átti þá eftir að sinna her­þjónustu næstu fimm árin. Á þeim árum kom hann meðal annars við í Austur og Vestur-Þýska­landi og Tékkó­slóvakíu þar sem hann kleif met­orða­stigann og var að lokum gerður að höfuðs­manni. 

Við heim­komuna til Banda­ríkjanna skráði hann sig í laga­nám í Harvard þar sem hann út­skrifaðist árið 1994. Á náms­árunum ritstýrði hann jafn­framt laga­tíma­ritinu Harvard Law Revi­ew. Því næst flutti hann til Was­hington D.C. þar sem hann fékk starf hjá lög­fræði­stofunni Willi­ams & Connolly. Sérhæfði Pompeo sig í skattamálum og löggjöf þeim tengdum.

Teboðsarmurinn tryggir þingsetu

Því næst tók einka­geirinn og fyrir­tækja­rekstur við þegar hann stofnaði, á­samt tveimur fyrr­verandi skóla­fé­lögum úr West Point, fyrir­tækið Thayer Aerospace. Fyrir­tækið sér­hæfði sig í sölu vara­hluta í flug­vélar. Pompeo var meðal stjórn­enda Thayer allt þar til ársins 2006 þegar hann varð stjórnandi olíu­fyrir­tækisins Sentry International. 

Starfinu gegndi hann næstu fjögur ár en að þeim loknum fékk hann nóg af einka­geiranum og á­kvað að hella sér út í stjórn­mál. Árið 2010 bauð hann fram sem full­trúa­deildar­þing­maður Kansas, en þar hafði hann búið frá 1996 þegar hann stofnaði Thayer. 

Með himin­háum styrkjum frá te­boðs­armi Repúblikana­hreyfingarinnar, einkum frá bræðrunum og milljarða­mæringunum Charles og David Koch, náði hann kjöri og lét fljótt til sín taka. Pompeo hefur getið sér orð fyrir að tala um­búða­laust og fyrir að veigra sér ekki undan því að tala um mál sem öðrum gætu þótt við­kvæm. 

Hörð gagnrýni á Hillary

Eftir að hann settist á þing tók hann sæti í upp­lýsinga­mála­nefnd full­trúa­deildarinnar og orku- og við­skipta­nefnd. Síðar var hann skipaður í nefnd sem sá um rann­sókn á hryðju­verka­á­rásinni í Beng­hazi í Líbíu. Rann­sóknin sneri einkum að við­brögðum Obama for­seta og Hillary Clin­ton, þá­verandi utan­ríkis­ráð­herra, en fjórir Banda­ríkja­menn létu lífið í á­rásinni þegar hryðju­verka­menn réðust inn í sendi­ráð Banda­ríkjanna. 

Pompeo gagn­rýndi Clin­ton nokkuð harð­lega fyrir hennar þátt og sagði að hún hafi af­vega­leitt um­ræðuna um Beng­hazi svo Obama næði endur­kjöri í kosningunum árið 2012. 

Ráð­herrann hefur verið iðinn við að tjá sig um hryðju­verka­menn og á­rásir þeirra. Árið 2013 var hann gagn­rýndur eftir að hann lét þau um­mæli falla að réttast væri að beina spjótunum að trúar­leið­togum vegna hryðju­verka­á­rása, enda væru slíkar nær undan­tekninga­laust fram­kvæmdar í nafni trúar. 

Þá hefur hann haldið hlífðar­skildi yfir her­mönnum og leyni­þjónustu­fólki sem sakað var um að hafa beitt ó­lög­mætum að­ferðum í leitinni að söku­dólgum vegna hryðju­verka­á­rásanna 11. septem­ber 2001. „Að­ferðunum sem var beitt voru í sam­ræmi við lög og á­kvæði stjórnar­skrárinnar,“ er meðal þess sem Pompeo sagði. „Menn okkar og konur höfðu það verk­efni að tryggja öryggi okkar í kjöl­far 9/11 — her­menn okkar og leyni­þjónustu­fólk eru hetjur en ekki peð í ein­hverju tafli frjáls­hyggju­manna.“ 

Í febrúar 2016 sagði Pompeo að réttast væri að upp­ljóstrarinn Edward Snowden fengi dauða­refsingu fyrir að hafa lekið leyni­legum upp­lýsingum leyni­þjónustunnar NSA. „Það ætti að flytja hann hingað til lands frá Rúss­landi og rétta yfir honum. Ég tel að rétta niður­staðan væri dauða­refsing fyrir að hafa stofnað lífi vina minna og þinna í hernum í hættu með því að leka upp­lýsingum, sem hann stal, til er­lendra ríkja,“ sagði Pompeo. 

Utanríkisráðherra eftir rex og pex Trump og Tillerson

Trump for­seta hefur væntan­lega þótt mikið til Pompeo koma enda hafa þeir talað á svipuðum nótum þegar kemur að hinum ýmsu málum. Skömmu eftir sigur Trump á Hillary Clin­ton í bar­áttunni um for­seta­em­bættið greindi hann frá út­nefningu sinni á Pompeo í em­bætti for­stjóra leyni­þjónustunnar CIA. 

Út­nefningin vakti at­hygli fyrir þær sakir að for­stjóri CIA þarf að gæta hlut­leysis í störfum sínum en Pompeo hefur alla jafna farið eigin leiðir og talað um­búða­laust um hlutina líkt og fyrr segir. 

Engu að síður flaug út­nefningin í gegnum öldunga­deildina og var Pompeo kjörinn for­stjóri CIA með 66 at­kvæðum gegn 32. Við starfinu tók hann 23. janúar 2017, ör­fáum dögum eftir að Trump tók em­bætti. Í starfi sínu sem for­stjóri leyni­þjónustunnar var Pompeo í nánu sam­bandi við Trump og segir sagan að vel hafi farið þeirra á milli á meðan því stóð. 

Það kom því ekki á ó­vart þegar Trump til­kynnti Pompeo sem nýjan utan­ríkis­ráð­herra eftir að hafa sparkað Rex Tiller­son úr em­bættinu en sú ákvörðun hafði lengi legið í loftinu.

„Stríð síðasta úrræðið“

Var Pompeo falið að leiða skipu­lags­starf í að­draganda fundar for­setans með Kim Jong-un, leið­toga Norður-Kóreu. Pompeo þurfti hins vegar fyrst að hljóta náð fyrir augum utan­ríkis­mála­nefndar öldunga­deildarinnar sem spurði hann spjörunum úr áður en gengið var til at­kvæða­greiðslu. 

Pompeo þótti koma vel fyrir, mætti vel undir­búinn eftir að hafa ráð­fært sig við alla fyrrum utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna sem enn eru á lífi. „Stríð ætti alltaf að vera síðasta úr­ræðið,“ sagði Pompeo um leið og hann sór þess að beita sér fyrir lausn að friði milli Banda­ríkjanna og Norður-Kóreu annars vegar og Íran hins vegar. 

Fór svo að Pompeo hlaut sam­þykki meiri­hluta öldunga­deildarinnar hinn 26. apríl 2018, 57 kusu með honum og 42 gegn. Eitt af hans fyrstu verkum var að fara til Brussel í Belgíu til fundar við leið­toga ríkja At­lants­hafs­banda­lagsins (NATO). Því næst tók við undir­búningur vegna sögu­legs leið­toga­fundar Trump og Kim Jong-un. Á­kveðið var að hann skyldi haldinn í Singa­púr í júní og sá Pompeo að stórum hluta til að skipu­leggja fundinn á­samt nefndum norður­kóreska leið­togans. 

Tímamótasamkomulag í molum

Sjálfur hitti Pompeo Kim Jong-un í októ­ber þar sem ætlunin var að leggja drög að öðrum fundi með Trump. Við­búið er að leið­togarnir hittist aftur á nýju ári og að þeir muni þar fara nánar yfir þau at­riði sem sam­þykkt voru á fundinum í Singa­púr og lúta í grófum dráttum að kjarna­af­vopnun á Kóreu­skaga. 

Það var síðan í byrjun þessa mánaðar að Banda­ríkin til­kynntu að þau hygðust af­létta tíma­móta­sam­komu­lagi þeirra við Rúss­land, sem komið var á árið 1987, en það batt enda á kapp­hlaup Banda­ríkjanna og Sovét­ríkjanna sálugu um að koma sér upp vopna­búri með meðal­drægum kjarn­orku­vopnum. 

„Marg­endur­tekin brot Rússa á sam­komu­laginu hafa stofnað lífi margra milljóna Banda­ríkja­manna og Evrópu­búa í hættu. Það er í okkar verka­hring að bregðast við með á­byrgum hætti,“ sagði Pompeo þegar til­kynnt var um að Banda­ríkin hygðust rjúfa sam­komu­lagið sem var liður í að­gerðum sem ráðist var í í kjöl­far fundar Reagans og Gor­bat­sjevs í Höfða árið 1986. 

Nú er það hins vegar Pompeo sem er á leiðinni til landsins en hann mun, sem fyrr segir, stoppa hér í nokkrar klukku­stundir og ganga á fund for­sætis­ráð­herra og utan­ríkis­ráð­herra.