Revolution-vélin er V2 og er vatnskæld og skilar 150 hestöflum ásamt 128 nm togi við 6,750 sn./mín. Að sögn Harley-Davidson er vélin með gott tog á breiðu sviði ásamt góðu afli á hásnúningi. Aflinu er skilað í afturdekkið gegnum sex gíra kassa. Grindin er úr áli og er vélin berandi hluti grindarinnar. Munurinn á útgáfunum er aðallega á fjöðrunarkerfi, en á grunngerðinni eru 47 mm öfugir demparar að framan en liðskipt fjöðrun með einum dempara að aftan. Komin er Showafjöðrun í Special-útgáfuna sem er rafstillanleg. Grunnútgáfan er 242 kíló að þyngd með fullan tank af bensíni en Special-útgáfan er 254 kíló. Hjólið kemur á álfelgum sem eru 19 tommur að framan og 17 tommur að aftan. Pan America kemur með TFT snertiskjá í lit sem er 6,8 tommur og er með leiðsögukerfi og blátannarbúnaði fyrir farsíma.

Hjólið er líka vel búið aksturshjálparbúnaði eins og beygjuhemlalæsivörn, beygjuspólvörn og brekkuaðstoð svo eitthvað sé nefnt. Fimm akstursstillingar eru í boði og eru tvær þeirra fyrir torfæruakstur. Í Off Road Plus stillingunni er slökkt á hemlalæsivörn að aftan ásamt samtengingu á bremsum og spólvörnin er stillt til að koma seint inn. Sætishæðin er nokkuð há eða 850 mm sem er dæmigert fyrir ævintýraferðahjól. Hægt er að lækka sætishæðina í Special-útgáfunni, en hún er líka með miðjustandara, upphituðum handföngum, stýrisdempara og álhlíf undir mótor. Það sem er athyglisvert við hjólið er að það kostar frá 2,2 milljónum króna í Bandaríkjunum sem er 100 þúsund krónum undir verði grunnútgáfu aðal keppinautarins, sem er BMW R 1250 GS.