Það sem vekur þó athygli margra er nýlegt viðtal Dezeen við Jochen Zeitz, forstjóra Harley-Davidson. Þar segir hann blákalt að framtíð Harley-Davidson verði 100% rafdrifin. Það þarf svo sem enga spádómsgáfu til að sjá að framtíð samgangna verði rafdrifin, einnig fyrir bílaframleiðendur. Einnig vekur athygli að Zeitz virðist ófeiminn að nefna það þrátt fyrir að stór kaupendahópur Harley-Davidson sjái ekki framtíðina með sömu augum. „Á einhverjum tímapunkti verður Harley-Davidson að fullu rafdrifið merki,“ sagði Zeitz í viðtalinu. „Það mun ekki gerast á einni nóttu en það er samt breyting sem er óhjákvæmileg. Ef litið er til sögu Harley-Davidson síðastliðin 120 ár hefur merkið alltaf verið í stöðugri þróun. Eins og stofnendur Harley-Davidson reyndu á sínum tíma að koma með eitthvað nýtt á markað, þurfum við að gera eins. Fyrsta rafmótorhjól Harley-Davidson var LiveWire sem kom á markað árið 2019, en LiveWire-nafnið hefur þróast út í undirtegund Harley-Davidson.