Grímuskylda fellur niður á miðnætti og munu þá fólk þá ekki lengur þurfa að bera andlitsgrímu í leikhúsum, innanlandsflugi og á hárgreiðslustofum, svo eitthvað sé nefnt.

Samkvæmt eldri sóttvarnarreglum var grímuskylda við lýði innandyra þar sem „ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum“ og á viðburðum þar sem gestir sitja í bókuðum sætum.

Hátíð fyrir hárgreiðslufólk

Böðvar Þór Eggerts­son, hár­greiðslu­meistari til þriggja áratuga, fagnar afléttingunni. „Grímuballið langa búið á miðnætti! Þetta eru bestu tíðindi ever. Ég vona að við göngum aldrei í gegnum þetta aftur að þurfa að vera með grímu allan daginn í vinnunni,“ segir Böðvar í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er hátíð fyrir okkur.“

Böðvar segir að þetta komi ekki á óvart. „Þetta var eins mikið út úr kú og gat verið. Það var eins og við værum lögð í einelti af sóttvarnarlækni núna í restina.“

Það hafi skotið skökku við að ekki væti hægt að verja dágóðri stund með kúnna í stól en svo mættu þeir fara á næsta bar og vera þar grímulausir. Böðvar sparar ekki stóru orðin. „Það er rosalega auðvelt að vera sóttvarnarlæknir og segja að ef gríma sé versta vandamálið þá eru vandamálin ekki mörg, það er auðvelt að segja þetta þegar hann sjálfur þarf ekki vera með grímu allan daginn,“ segir Böðvar.

„Allir þeir sem vinna þannig vinnu, skurðlæknar og annað, sem þurfa að vinna með grímu allan daginn eiga alla mína samúð.“

Vann ekki gegn vinnutapi

Daníel Örn Hinriksson, hárgreiðslumeistari og einn eigandi hárgreiðslustofunnar Senter, er einnig alsæll.

Danni.jpg

„Við vorum farin að halda að við höfðum bara gleymst. Það hefði átt að vera löngu búið að afnema þetta en við höfum tekið þessu eins og hverju öður,“ segir Daníel.

„Við vorum sérlega hissa í síðustu tilslökunum að við skyldum áfram þurfa að vera með grímur og að það skyldi ekki vinna með okkur ef við fengum í stólinn einstakling sem myndi svo greinast smitaður. Við þurftum samt sem áður að fara í fulla sóttkví og allt það. Það er ekki eins og þetta var að vinna okkur gegn vinnutapi. Sem við þurftum bara að taka á okkur. Það er enginn sem borgar okkur laun á meðan það er enginn í stólnum,“ segir Daníel sem ítrekar að hann sé alsæll.