Böðvar Þór Eggerts­son, hár­greiðslu­meistari til margra ára, er heitt í hamsi vegna sam­komu­tak­markana stjórn­valda. Hann segist óska þess að hár­greiðslu­fólk njóti sama jafn­ræðis og líkams­ræktar­stöðvar sem opnuðu dyr sínar í morgun að nýju. Margt sé ó­skýrt nú og mikið mis­ræmi í því hverjum sé gert að loka.

„Mér er heitt í hamsi og ég á mjög erfitt með að halda kjafti,“ segir Böðvar í sam­tali við Frétta­blaðið. Ó­trú­legt sé að horfa upp á það að tann­læknar, hnykkjarar og fót­snyrti­fræðingar megi hafa opið, svo dæmi séu tekin, en ekki hár­greiðslu­fólk.

Mis­ræmi í meintu jafn­ræði ráð­herra

Ný reglu­gerð frá heil­brigðis­ráðu­neytinu tók gildi í dag. Þar eru hár­greiðslu­stofum á höfuð­borgar­svæðinu gert að hafa á­fram lokað líkt og hefur verið raunin síðustu tvær vikur.

Heil­brigðis­ráð­herra fór hins­vegar gegn til­lögum sótt­varna­læknis og heimilar reglu­gerðin skipu­lagða hópa­tíma hjá líkams­ræktar­stöðvum, með því skil­yrði að allir skrái sig í tímann og að enginn noti sama búnað.

„Það er þetta sem ég er ó­sáttur við. Heil­brigðis­ráð­herra segir að hún fari ekki eftir minnis­blaðinu í þessu til­viki því henni finnst það ekki gæta jafn­ræðis, að þú getir ekki stundað cross­fit í líkams­ræktar­stöð en að þú getir það í Cross­fit stöð á Ægis­síðu,“ segir Böðvar.

„Þannig að hún vill ekki mis­muna og þá getum við farið að segja: „En við?“ Þau loka á hár­greiðslu­fólk, nuddara og snyrti­fræðinga. En fóta­að­gerðar­fræðingar og hnykkjarar mega hafa opið?“ spyr Böðvar.

Sjálfur hefur Böðvar mikil tengsl inn í bransann, enda hefur hann starfað sem hár­greiðslu­maður í 31 ár. Hann segist ekki vita til þess að neinn hafi smitast á hár­greiðslu­stofu hér á landi, enda unnið með grímu og spritt myrkranna á milli.

„En á sama tíma fá tann­lækna­stofur að halda á­fram að vera opnar. Þar sem þú færð bor upp í trantinn á þér og frussar í allar áttir. Þeir bera fyrir sig að þetta sé heil­brigðis­starfs­fólk en þetta er sama nándin og miklu meiri hjá tann­lækni heldur en nokkurn tímann hjá okkur.“

Hann segist hafa fulla sam­úð með rekstaraðilum líkams­ræktar­stöðva. Sjálfur sækir hann reglu­lega rækt og segist gera sér grein fyrir mikil­vægi þess fyrir and­lega heilsu.

„En við vitum alveg að þegar þú ert kominn í átök í hóp­tíma að þá ferðu að anda örar, þú ferð að svitna og frussa frá þér út í loftið ögnum sem fara miklu lengra en tvo metra.“

Segir stéttar­skiptingu ráða för við lokanir

Böðvar segir að svo virðist vera sem á­kveðin stétt­skipting ríki þegar kemur að því að út­lista sam­komu­tak­markanir. Hann bendir á að þegar hár­greiðslu­fólki hafi verið gert að loka í vor hafi yfir­völd verið afar skýr í sínu máli.

„En þetta er bara komið í svo mikið ó­efni, nú er allt ó­ljóst, bæði það sem sótt­varna­læknir segir og líka ráð­herra. Og nú les ég það til dæmis í morgun að ÍSÍ hafi gefið grænt ljós á æfingar án snertingar. Í gær átti að loka á allt sport,“ segir Böðvar.

„Þessu virðist vera stéttar­skipt hrein­lega. Af því að þetta er fót­bolti, þá gilda vægari reglur þar? Samt hafa komið upp fullt af smitum í í­þróttum en samt er ekki lokað harka­lega á þær.

Hjá flestum er um að ræða sport sem þeir hafa engar tekjur af, á meðan í okkar til­viki snýst þetta um launin okkar. Það er allt of mikið ó­sam­ræmi í þessari reglu­gerð. Ég vinn fyrir fimm manna fjöl­skyldu og get alveg sagt þér það að hár­greiðslu­fólk er ekki með há laun,“ segir Böðvar.

„En svo fara bara fram lands­leikir þar sem allir faðmast og fara í sleik eftir leik. Það gleymist að mark­maður Belga sem greindist með CO­VID, hann var alltaf að grípa boltann og henda honum út aftur og það veit enginn hvað er með þetta lands­lið núna.“

Fannst þetta auð­veldara í vor

Böðvar segir að hár­greiðslu­fólk hafi fengið lítinn fyrir­vara áður en kom til lokana fyrir tveimur vikum. „Svo fer Þór­ólfur í klippingu sama dag á þessum mánu­degi sem hann til­kynnir að hann hafi sent inn bréfið,“ segir hann og gefur lítið fyrir út­skýringar Þór­ólfs á blaða­manna­fundi al­manna­varna að hann hafi löngu verið búinn að panta sér tíma.

„Við erum með af­bókunar­kerfi og ef þú teldir að það væri mikil hætta fólgin í því að hitta mig í vinnunni, myndirðu þá ekki bara af­bóka? Þú myndir lík­legast ekki fara fyrst í klippingu til mín og svo loka á mig.“ segir Böðvar.

„Ég væri svo til í að hitta Þór­ólf núna, bara í frétta­tíma, ég var svo pirraður út í hann. Bara til að biðja hann um að rök­styðja það hvernig hann fái það út að hár­greiðslu­stofa sé lokuð versus tann­lækna­stofa til dæmis,“ segir hann. Hann segist hafa átt mun auð­veldara með sex vikna lokun hár­greiðslu­stofa í haust.

„Því að í fyrstu lotunni var lokað á okkur og tann­lækna og lækna með einka­stofur, nuddara og bara okkur öll. Ég átti miklu auð­veldara með að fara sjálfur and­lega í gegnum það. Því þá vissi ég bara að það væri búið að loka á okkur öll sem bjóðum þessa þjónustu sem krefst nándar.“

ÞVILIKA SKÖMMIN !! Covid 19😡😡😡 Hvernig væri að þið sem leggið til og takið ákvarðanir um hvað skal gert og hvað skal...

Posted by Böðvar Þór Eggertsson on Monday, 19 October 2020