Haraldur Johannes­sen ætlar að hætta sem ríkis­lög­reglu­stjóri um ára­mót, að því er frá er greint á vef RÚV. Þar kemur fram að hann hafi óskað eftir því við Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra að fá að láta af em­bætti eftir ára­mót.

Haraldur sendi vinnu­fé­lögum sínum bréf þess efnis í dag þar sem hann til­kynnir þetta. Þá hefur Haraldur óskað eftir því að hann taki að sér sér­staka ráð­gjöf við ráð­herra á sviði lög­gæslu­mála eftir að hann hættir sem lög­reglu­stjóri.

Nokkurn styr hefur staðið í kringum Harald í em­bættinu að undan­förnu. Þannig vöktu opin­ber um­mæli hans í septem­ber um ó­sætti innan lög­reglunnar mikla at­hygli. Lög­reglu­fé­lög um allt land lýstu yfir mikilli furðu vegna þeirra í kjöl­farið og fóru erjurnar að miklu leyti fram í fjöl­miðlum.

Dóms­mála­ráð­herra hefur boðað til blaða­manna­fundar klukkan 13:00 í dag þar sem lög­gæslu­mál verða rædd. Í til­kynningu Haraldar segir hann að hann stígi sáttur frá borði eftir að hafa gegnt em­bættinu síðast­liðin 22 ár. Ráð­herra boði nú breytingar á yfir­stjórn lög­reglu­mála og því telji Haraldur rétt að hleypa nýju fólki að.

Sér hafi verið það ljúft og skylt að vera ráð­herra í fram­haldi til ráð­gjafar um fram­tíðar­skipu­lag lög­gæslu. Honum hafi alla tíð verið hug­leikið að efla lög­regluna í landinu, al­menningi til heilla, þótt margt hafi á við­burða­ríka daga hans drifið.

Haraldur telur eðli­legt að í fá­mennu sam­fé­lagi líkt og Ís­landi sé heilla­væn­legt og raunar ó­hjá­kvæmi­legt að stefna að því að landið verði eitt lög­gæslu­um­dæmi með eitt em­bætti og einn lög­reglu­stjóra. Það sé sýnin sem hann hafi á skipan lög­reglu­mála, sem hann telur að myndi stuðla að meiri skil­virkni í störfum lög­reglunnar og betri nýtingu á skatt­fé.

Fréttin hefur verið uppfærð.