Haraldur Johannes­sen fær greiddar 56,7 milljónir króna á næstu tveimur árum, sam­kvæmt starfs­loka­samningi hans. Haraldur samdi um starfs­loka­samning til tveggja ára við dóms­mála­ráð­herra en hann lætur af störfum sem ríkis­lög­reglu­stjóri um ára­mót.

Þetta kemur fram í svari Ás­laugar Örnu Sigur­björns­dóttur dóms­mála­ráð­herra við fyrir­spurn fjár­laga­nefndar um starfs­lok Haraldar og hvernig þau verða fjár­mögnuð. Í svarinu segir að ekki sé gert ráð fyrir sér­stakri fjár­mögnun því samningurinn rúmist innan fjár­veitinga mála­flokksins.

Þá segir að til saman­burðar hefðu laun Haraldar út skipunar­tímann, sem hefði átt að vera árið 2023, numið 104,6 milljónum króna með launa­tengdum gjöldum, eða 80,5 milljónum króna án launa­tengdra gjalda.

Starfslokin voru að frumkvæði Haraldar, segir Áslaug í svari sínu. Lögum samkvæmt er ráðherra ekki heimilt að víkja ríkislögregla úr starfi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Starfs­loka­samningurinn kveður á um 56,7 milljónir króna til ársins 2022, eða 47,2 milljónir króna án launa­tengdra gjalda. Það sé um 54 prósent af launum út skipunar­tímann.

Í svarinu er tekið fram að samningur um starfs­lok Haraldar hafi verið gerður í kjöl­far við­ræðna um breytingar á skipan lög­reglu­mála, meðal annars á yfir­stjórninni. Í ljósi þess hve langan feril sem ríkis­lög­reglu­stjóri á að baki og hversu langt var eftir af skipunar­tíma hans hafi verið talið rétt að „sam­hliða fyrir­hugðum breytingum yrðu gerðar breytingar hjá em­bætti ríkis­lög­reglu­stjóra, sem HJ var sam­mála um“. Haraldur kæmi þess í stað að ráð­gjöf við ráð­herra.

Ráð­herra ekki heimilt að víkja honum úr starfi

„Í við­ræðum aðila kom þannig fram að ráð­herra teldi mikinn feng í því að fá ráð­gjöf HJ varðandi mál­efni yfir­stjórnar lög­reglunnar, flutning á verk­efnum milli lög­gæslu­stofnana, og varðandi sér­tæka mála­flokka, svo sem skipu­lagða glæpa­starf­semi,“ segir í svari Ás­laugar.

Þá er tekið fram að þar sem ráð­herra sé að lögum ekki heimilt að víkja ríkis­lög­reglu­stjóra úr starfi hafi frum­kvæðið orðið að koma frá honum sjálfum. „Það var enginn annar grund­völlur að starfs­lokum,“ segir enn fremur. Em­bætti ríkis­lög­reglu­stjóra verði ekki lagt niður og ó­heimilt sé að fara í skipu­lags­breytingar eða leggja em­bætti niður til að koma em­bættis­manni frá.