Haraldur Sverris­son, bæjar­stjóri í Mos­fells­bæ, hefur á­kveðið að gefa ekki kost á sér til á­fram­haldandi setu í bæjar­stjórn við bæjar­stjórnar­kosningarnar sem haldnar verða í maí á næsta ári. Frá þessu er greint í til­kynningu frá Haraldi en hann til­kynnti þetta á fundi full­trúa­ráðs Sjálf­stæðis­fé­laganna í Mos­fells­bæ í gær­kvöldi.

„Ég var svona búinn að hugsa það með sjálfum mér fyrir fjórum árum að þetta yrði mitt síðasta kjör­tíma­bil í bæjar­stjórn Mos­fells­bæjar en um­fram allt hefur þetta verið af­skap­lega skemmti­legur og gefandi tími,“ segir Haraldur í til­kynningunni.

Haraldur er odd­viti Sjálf­stæðis­manna í Mos­fells­bæ og hefur verið bæjar­stjóri frá árinu 2007, setið í bæjar­stjórn frá árinu 2002 og var vara­bæjar­full­trúi á árunum 1998 til 2002.

„Ég hef verið bæjar­stjóri frá árinu 2007 sem er lengst allra sem gengt hafa þessu em­bætti í Mos­fells­bæ. Á þessum tíma hefur í­búum fjölgað um helming og þó ég segi sjálfur frá hefur alveg ó­trú­leg upp­bygging átt sér stað hér á um­liðnum árum. Mest um vert er að bæjar­búar eru stoltir af sínu sveitar­fé­lagi, þeir standa vörð um sam­fé­lagið og sú þjónusta sem við veitum er í fremstu röð sam­kvæmt mælingum. Ekkert af þessu gerist fyrir til­viljun og ég vil þakka það góðri sam­vinnu innan meiri­hluta bæjar­stjórnar og einnig okkar frá­bæra starfs­fólki. Ég vil því nota þessi per­sónu­legu tíma­mót til að þakka sam­starfs­fólki mínu, kjörnum full­trúum, starfs­fólki Mos­fells­bæjar og öðrum fyrir far­sælt sam­starf. Síðast en ekki síst vil ég þakka í­búum Mos­fells­bæjar fyrir að fá að vinna með þessu góða sam­fé­lagi í öll þessi ár, það hefur gefið mér mikið. En ég mun gegna starfi bæjar­stjóra af trú­mennsku þar til í vor þegar kjör­tíma­bilinu lýkur.“