Síðar í dag fer fram viðburðurinn Sálmar og bjór á vegum Grafarvogskirkju. Tilefnið er útgáfa nýrrar sálmabókar. Sóknarpresturinn segir útgáfu sálmabókarinnar vera stórviðburð í kirkjunni.
„Þetta fyrirbæri og þessi viðburður, Sálmar og bjór, er mjög þekkt í til dæmis Bandaríkjunum. Það er þó nokkuð algengt í kirkjum þar að fólk komi saman á pöbbum og syngi sálma saman,“ segir séra Guðrún Karls Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogi.
Viðburðurinn verður í Ölhúsinu í Grafarvogi á milli klukkan fimm og sjö í kvöld. Guðrún segir tímasetninguna frábæra því fólk geti síðan farið heim og búið til föstudagspitsuna.
„Það er einn alvöru hverfispöbb í Grafarvogi. Þau tóku vel í þetta og ætla að vera með happy-hour á meðan við erum þarna,“ segir Guðrún sem kveður viðbrögðin og áhugann mikinn.
„Fólk hefur tekið mjög vel í þetta, alveg virkilega vel. Þannig að ég vona að það verði alveg fullt af fólki,“ segir Guðrún og bætir við að allir séu velkomnir, ekki aðeins Grafarvogsbúar. „Þetta er risastór pöbb, öll sem hafa áhuga eru velkomin.“
Guðrún segir að sálmasöngur og bjórdrykkja fari vel saman. Það séu þó engin skilyrði að drekka bjór á viðburðinum, sem er ekki sá fyrsti sinnar tegundar hérlendis. Guðrún segist vita af tveimur áður.
„Nýlega var Dómkirkjan með svona viðburð og þau héldu það í 12 Tónum og svo veit ég að Langholtskirkja hefur verið með þetta í safnaðarsalnum hjá sér,“ segir hún.
Búast má við hressilegri stemningu að sögn Guðrúnar. Valdir hafi verið gamlir og nýir sálmar sem verði sungnir. Einnig verði tekið á móti uppástungum úr sal.
„Við erum búin að velja gamla sálma sem margir kunna, splunkunýja og flotta sálma og svo sálma sem hafa verið þekktir í svolítinn tíma en ekki verið í sálmabókinni en eru komnir þangað núna,“ segir Guðrún.
Þá eru margir sálmarnir þekktir úr brúðkaupum og jarðarförum.
„Það er nefnilega einhvern veginn alltaf þannig að bestu sálmarnir, þeir enda oft sem svona jarðarfararsálmar,“ segir Guðrún.
Báðir organistar kirkjunnar verða á staðnum ásamt báðum kórum Grafarvogskirkju og karlakór Grafarvogs, sem mun sjá um forsönginn. „Við vonum að fólk taki undir og syngi með,“ segir Guðrún.