Hannesína Scheving, hjúkrunar­fræðingur og fram­halds­skóla­kennari, skellti sér til Tenerife um jólin eins og margir Ís­lendingar. Ferðin endaði þó á að verða nokkuð dýrari fyrir Hannesínu en hún gerði ráð fyrir því ó­prúttnir sölu­menn höfðu af henni rúmar 300 þúsund krónur rétt áður en hún hélt heim til Ís­lands.

„Ég er nú sjálf mjög passa­söm kona með allt svona en lét ginnast þarna,“ segir Hannesína við Frétta­blaðið en hún var á Tenerife frá 22. desember til 5. janúar.

Fjári flott spjald­tölva

Allt byrjaði þetta þegar hún var stödd við verslunar­götuna A­venida de Las Améri­cas, sem oft er kölluð Lauga­vegurinn af Ís­lendingum á Tenerife. Hannesína ætlaði að kaupa sér vatn en lenti þá á tali við sölu­menn, sem lík­lega voru af ind­versku bergi brotnir, sem sýndu henni síma sem henni leist nokkuð vel á – enda verðið að­eins 40 evrur.

Hannesína segir að til að fá símann hafi hún þurft að bíða eftir öðrum manni sem kom og bauð henni inn í verslunina og á bak við af­greiðslu­borðið. Það var þá sem hann vakti at­hygli hennar á spjald­tölvu sem átti að kosta 150 evrur og var fjári flott. Maðurinn var býsna sann­færandi eins og Hannesína lýsir.

„Þá segist hann hafa unnið á Ís­landi, kunni nokkur orð í ís­lensku og hafi kallað sig Atla þegar hann starfaði hér. En það þurfi maður að koma frá Goog­le og setja ís­lensku inn í hana.“

Vildi vita hve­nær hún færi

Maðurinn spurði Hannesínu því næst hve­nær hún færi heim en á­ætluð brott­för til Ís­lands var mið­viku­daginn 5. janúar. „Þá segist hann verða í bandi við mig klukkan 16 á þriðju­degi. Svo á þriðju­degi hringir hann og vísar okkur í þessa búð. Þar situr þessi Car­los sem segist vinna hjá Goog­le,“ segir Hannesína en þá var maðurinn búinn að setja tölvuna upp en sagði að hún þyrfti að greiða fyrir á­skrift af sjón­varps­efni til að geta fengið hana af­henta.

„Þarna var ég orðin hálf föst,“ segir hún en verðið fyrir á­skriftina var 24 evrur á mánuði í á­kveðið marga mánuði. Til­kynnti maðurinn henni að hún gæti hætt að borga af henni heima á Ís­landi en hann þyrfti fyrst að fá kortið hennar.

„Ég var treg til en þá kemur í ljós að ekki er hægt að gera þetta nema borga alla upp­hæðina á staðnum,“ segir Hannesína en úr varð að kortið hennar var straujað fyrir þúsund evrur til að byrja með. Hún viður­kennir að henni hafi ekki staðið á sama um tíma því allt tók þetta langan tíma, eða fjórar klukku­stundir. Þegar upp var staðið höfðu sölu­mennirnir haft af henni 2.100 evrur, rétt rúmar 300 þúsund krónur á nú­verandi gengi.

Var hrædd um eigið öryggi

„Ég var drullu­hrædd ein þarna og þetta tók um 4 klukku­stundir. Ég vildi bara losna þarna út,“ segir Hannesína sem hafði eðli­lega lítinn tíma til að bregðast við, enda fór hún heim daginn eftir. Svo virðist vera sem sölu­mennirnir spili þennan leik við grun­lausa ferða­menn og beiti öllum ráðum til að hafa peninga af fólki. Hún kveðst hafa lokað kredit­korti sínu fljót­lega eftir að hún yfir­gaf verslunina en eftir á að hyggja hafi hún átt að vita betur.

„Auð­vitað átti ég ekki að taka þátt í þessu en þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera. Ég lá and­vaka nóttina á eftir og fór í gegnum ferlið og áttaði mig á hvernig þeir gerðu þetta. Þeir eru mjög slungnir og halda manni í raun í heljar­greipum. Mér stóð heldur ekki á sama þarna á tíma­bili. Og þetta byrjaði allt á því að ég ætlaði bara að fá mér vatn,“ segir hún.

Hannesína vakti fyrst at­hygli á þessu í Face­book-hópnum Ís­lendingar á Tenerife og sagði hún að til­gangur færslunnar hafi verið að vera fólk við því að stunda við­skipti við sölu­menn eins og þá sem hún hitti þarna. „Þeir hafa pott­þétt náð fleirum en mér,“ segir hún.