Menningarsetrið Hannesarholt verður opnað á ný eftir að hafa verið lokað í rúmt ár.

Sjálfseignastofnunin hóf starfsemi árið 2012 og hefur reksturinn verið fjármagnaður af stofnendum Hannesarholts, Ragnheiði Jónu Jónsdóttur og Arnóri Víkingssyni, með stuðningi hollvina og hollustu einstaklinga, fyrirtækja, lista- og fræðimanna. Stofnunin hefur aldrei notið opinberra rekstrarstyrkja. Stefnt var að því að tryggja reksturinn til framtíðar með samstarfssamningi við stjórnvöld og hafa viðræður þess efnis staðið yfir í hátt í tvö ár, en af honum varð ekki.

Matreiðslumaðurinn Friðrik V. Hraunfjörð mun einnig hefja veitingarekstur í húsinu er það opnar á ný. Boðið verður upp á fisk- og grænkerarétti í hádeginu og á kvöldin verður í boði almenn veisluþjónusta og matartengdir menningarviðburðir.

Það er opnunarstyrkur Anna-Maria & Stephen Kellen góðgerðarsjóðsins í New York, sem hefur gert Hannesarholti kleift að halda rekstri hússins áfram.

„Við erum sjóðnum og stjórnarformanni hans, Caroline Kellen, ævarandi þakklát, en Caroline er góðvinur Hannesarholts og sýnir nú í verki áhuga og skilning á hugsjónastarfi Hannesarholts,“ segir Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, einn af stofnendum Hannesarholts.

Forsvarsmenn segjast þakklátir að löngum óvissutíma sé lokið. Myndlistarsýning Þórunnar Elísabetar, Himneskt er að lifa, prýðir veggina og verður öllum opin þriðjudaga til laugardaga.

Leiðrétting: Fréttin hefur verið leiðrétt þar sem Hannesarholt lokaði ekki vegna samkomutakmarkana á tímum COVID heldur sáu stofnendur sér ekki fært að halda rekstri áfram með eigin framlögum og framlögum sjálfstæðra aðila og fyrirtækja en Hannesarholt hefur aldrei notið opinberra rekstrarstyrkja