Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir það skrítið að Gunnar Smári Egilsson, sem Hannes segir að sé „gamall leigupenni auðjöfranna“, sé nú orðinn „verkalýðsleiðtogi og sósíalistaforingi“.

Prófessorinn skrifar í færslu á Facebook-síðu sinni að hann telji laun vera einkamál vinnuveitenda og launþega, og að hann geti alveg sofið á næturnar þó aðrir séu launahærri en hann. „En mér finnst dálítið skrýtið, að gamall leigupenni auðjöfranna, sem hafði fyrir þrettán árum laun að núvirði 4–5 milljónir á mánuði, eins og Frjáls verslun upplýsti þá og hér sést, skuli nú gerast verkalýðsleiðtogi og sósíalistaforingi og harðorður andstæðingur „auðvaldsins“,“ skrifar Hannes á Facebook síðu sinni.

Með færslunni lætur Hannes fylgja með skjáskot úr tekjublaði Frjálsrar verslunar frá 2006, sem sýnir að Gunnar Smári var með tæpa tvær milljónir í laun á mánuði. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu gerir sú upphæð um 3,5 milljón á mánuði. Ef miðað er við breytingu samkvæmt launavísitölu væri upphæðin tæpar 4,3 milljónir króna.

Gunnar Smári svarar um hæl og segir skrif Hannesar „tóma vitleysu“ skrifaða í „vænisýkiskasti og ofboði“. „ Grasrót í einu félagi rís upp gegn þessu, vinnur stjórnarkjör og lætur það verða sitt fyrsta verk að byggja upp félagssvið til að örva virkni almennra félaga og endurheimta eðli félagsins í félaginu; gera það aftur að félagi en ekki stofnun/fyrirtæki/klíkuveldi,“ skrifar Gunnar á Facebook. „Við það fær hægrið og sendisveinar auðvaldsins hland fyrir hjartað og fara á taugum, skrifa tóma vitleysu í vænisýkiskasti og ofboði,“ heldur hann áfram.

Færslur þeirra félaga má sjá hér fyrir neðan.